Erlent

58 ára gömul amma ætlar að horfa í augun á böðlunum þegar hún verður skotin

Birgir Olgeirsson skrifar
Lindsay Sandiford í dómsal í Indónesíu.
Lindsay Sandiford í dómsal í Indónesíu. Vísir/EPA
58 ára gömul bresk amma verður tekin af lífi á næstunni í Indónesíu eftir að verið dæmd til dauða fyrir að smygla kókaíni til Balí árið 2012.

Konan heitir Lindsay Sandiford sem segist vera síðasti fanginn á dauðdeild í Kerobokan-fangelsinu í Balí eftir að átta fangar, þar á meðal góður vinur hennar Andrew Chan, voru teknir af lífi síðastliðinn miðvikudag.

Yfirvöld í Indónesíu segja Sandiford mæta aftökusveit í leynd og verður ekki greint frá því opinberlega hvenær aftakan mun eiga sér stað. Það litla sem hún veit er að yfirvöldum ber að tilkynna henni með þriggja daga fyrirvara hvenær hún verður tekin af lífi.

Breska dagblaðið The Daily Mail hefur birt skrif Sandiford á vef sínum en þar segist hún vera byrjuð að skrifa kveðjubréf til fjölskyldu sinnar og vina. Hún segist hafa fengið val um að láta hylja höfuð sitt þegar aftakan fer fram en hefur neitað því. „Það er ekki af því að ég er huguð heldur vegna þess að ég vil ekki fela mig, ég vil að þeir horfi á mig þegar þeir skjóta mig,“ skrifar Sandiford.

Hún segir yfirvöld í Indónesíu ætla að taka alla þá af lífi sem hafa verið dæmdir til dauða fyrir árslok 2015 og segist ekki eiga von á miskunn. Nú þegar hafa fjórtán verið teknir af lífi það sem af er ári en hún segir lokastund sína hafa færst nær eftir að fangarnir átta voru teknir af lífi síðastliðinn miðvikudag. Hún segir fangana hafa sungið Amazing Grace á meðan þeir voru leiddir í skógarrjóður þar sem aftakan fór fram. Þeir sungu einnig lagið 10.000 Reasons áður en þeir voru skotnir en það var uppáhalds lag vinar hennar Andrew Chan sem Sandiford segir hafa hjálpað sér í gegnum erfiða tíma í fangelsinu.

Sjálf ætlar hún að syngja lagið Magic Moments sem Perry Como gerði vinsælt um miðbik síðustu aldar. „Ég átti kærasta sem lék sér að því að breyta texta lagsins á meðan hann lék það á Hammond-orgel til að láta mig hlæja. Þetta lag minnir mig á góða tíma.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×