Innlent

5000 inneignarkort á veitingastað ónothæf

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Aha.is var búið að greiða Lifandi markaði klippikortin upp að stærstum hluta og tapaði því á viðskiptunum.
Aha.is var búið að greiða Lifandi markaði klippikortin upp að stærstum hluta og tapaði því á viðskiptunum.
Veitingastaðnum Lifandi markaði var lokað á dögunum en um 5.000 inneignarkort fyrir tíu drykkjum á staðnum höfðu verið seld nokkru áður á vefsíðunni Aha.is. Inneignarkortið kostaði 4.990 krónur og fjölmargir höfðu ekki notað kortið þegar staðnum var lokað.

„Það eru nokkur fyrirtæki sem við höfum átt viðskipti við sem hafa farið á hausinn. Við bregðumst alltaf við með það að leiðarljósi hvað sé best fyrir neytendur,“ segir Helgi Már Þórðarson, eigandi Aha.is, en fyrirtækið mun gefa öllum þeim, sem geta ekki nýtt inneignarkortið, inneign hjá Aha.is.

„Við töpum á þessu já, en til langs tíma litið verða viðskiptavinir okkar ánægðir og við fáum fleiri viðskiptavini. Við værum aldrei orðin fimm ára gömul hefðum við ekki gert þetta frá byrjun.“

Aha.is var búið að greiða Lifandi markaði fyrir kortin að stærstum hluta. „En ekki alveg allt. Venjulega fá fyrirtæki jafnóðum greiðslur frá okkur en þegar um er að ræða svona klippikort þá sláum við varnagla við og greiðum ekki allt að fullu stax,“ segir Helgi og bætir við að eigandi Lifandi markaðar hafi komið heiðarlega fram þegar hann sá í hvað stefndi.

Helgi segir fyrirtækið hafa aðgang að Creditinfo og geti þannig skoðað sögu fyrirtækja sem á að fara í samstarf við. Í þessu tilfelli hafi sagan þó ekki verið skoðuð enda hafi þau treyst fyrirtækinu og haldið að það væri stöðugt.

Í svari frá Neytendastofu vegna málsins kemur fram að þegar klippikortið hafi verið sótt sé samningssambandi neytandans og Aha.is í raun lokið, svo neytandinn á ekki lögbundna kröfu á Aha.is vegna þessa. Því gangi Aha.is lengra en lögbundin skylda fyrirtækisins kveði á um og sé því í rétti til að veita inneign í stað endurgreiðslu.

Þá segir að engin opinber stofnun hafi eftirlit með því hvernig farið er með kröfur neytenda þegar fyrirtæki fara í þrot eða loka og vanefna þar með samningsskyldu sína gagnvart neytandanum. Neytendastofa hafi ekki tekið ákvörðun í máli þar sem komi til álita hvort þetta teldust óréttmætir viðskiptahættir og því geti stofnunin ekki svarað því á þessu stigi.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 27. júní




Fleiri fréttir

Sjá meira


×