Enski boltinn

48 prósent meiri áhugi á stelpunum í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katie Chapman og Claire Rafferty með bikarinn eftir sigur Chelsea.
Katie Chapman og Claire Rafferty með bikarinn eftir sigur Chelsea. Vísir/Getty
Enska kvennaknattspyrnan er í mikilli sókn og það sést vel á áhorfendaaðsókn á leikina á nýloknu tímabili í ensku úrvalsdeildinni hjá konunum.

Chelsea tryggði sér enska meistaratitilinn um helgina og endaði þar með tveggja ára sigurgöngu Katrínar Ómarsdóttur og liðsfélaga hennar í Liverpool.

3180 manns mættu á lokaleik Chelsea þegar liðið tryggði sér titilinn með því að vinna 4-0 sigur á Notts County.

Alls varð 48 prósent áhorfendaaukning á leikjum stelpnanna í ár en 1076 komu að meðaltali á leikina í stað 728 áður. BBC segir frá þessu.

Það mættu 164 prósent fleiri á leiki Chelsea á leiktíðinni sem var mesta aukningin hjá einu liði. Það mættu aftur á móti flestir á heimaleiki Manchester City eða 1500 að meðaltali.

Enska kvennalandsliðið í fótbolta náði bronsinu á HM í Kanada í sumar og sá sögulegi og góði árangur á örugglega mikinn þátt í meiri áhuga.

Bikarúrslitaleikur kvenna fór nú í fyrsta sinn fram á Wembley og þar vann Chelsea 1-0 sigur á Notts County. Chelsea varð því tvöfaldur meistari.

Chelsea varð í sjöunda sæti árið 2013 og síðan í öðru sæti fyrir ári síðan. Liðið hefur því verið í stöðugri sókn síðan að Emma Hayes tók við fyrir 2013-tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×