Innlent

460 biðu um áramótin eftir því að komast í fangelsi

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Í svarinu kemur einnig fram að frá árinu 2010 hafa 1.025 einstaklingar hafið afplánun fangelsisrefsingar, sumir oftar en einu sinni.
Í svarinu kemur einnig fram að frá árinu 2010 hafa 1.025 einstaklingar hafið afplánun fangelsisrefsingar, sumir oftar en einu sinni. Vísir / Heiða
Um síðustu áramót biðu 460 einstaklingar þess að komast í fangelsi til að afplána fangelsisdóma sína. Af þeim höfðu 137 sótt um að afplána dóma sína með samfélagsþjónustu. 105 þeirra fengu beiðni sína samþykkta. Þetta kemur fram í svari Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni, þingmanni Pírata.

Í svarinu kemur einnig fram að frá árinu 2010 hafa 1.025 einstaklingar hafið afplánun fangelsisrefsingar, sumir oftar en einu sinni. Mikill munur er á kynjunum en 937 karlar og 88 konur eru í hópnum. Flestir þeirra eru á aldrinum 21 til 30 ára, eða 471 einstaklingur, en 9 voru á aldrinum 15 til 17 ára.

Frá árinu 2010 hafa einnig 426 hafið afplánun fangelsisrefsingar með samfélagsþjónustu, sumir oftar en einu sinni. Í þeim hópi er kynjahlutfallið svipað eða 374 karlar og 52 konur. Um helmingur þeirra voru á aldrinum 21 til 30 ára, eða 222 einstaklingar.

Frá því í febrúar 2012 hafa 97 fangar lokið afplánun undir rafrænu eftirliti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×