Innlent

45 milljóna króna átak gegn krabbameini í ristli

Bjarki Ármannsson skrifar
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Kristján Oddsson, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands, undirrituðu samninginn í dag.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Kristján Oddsson, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands, undirrituðu samninginn í dag. Mynd/Velferðarráðuneytið
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Kristján Oddsson, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands, undirrituðu í dag samkomulag um undirbúning skimunar fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi hjá aldurshópnum sextíu til 69 ára. Stefnt er að því að hefja skimun í byrjun næsta árs.

Ráðherra fól Krabbameinsfélaginu í fyrra að leggja fram tillögur um hvernig standa mætti að undirbúningi og innleiðingu hópleitar að krabbameinum í ristli, en krabbamein í ristli og endaþarmi er þriðja algengasta krabbameinið á heimsvísu. Tillögunum var skilað í ágúst síðastliðnum og með samningnum í dag er verkefnið komið á framkvæmdastig.

Í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu er haft eftir heilbrigðisráðherra að samningurinn marki tímamót. Hann sé mikilvægur áfangi í forvarnar- og lýðheilsumálum.

Áætlaður heildarkostnaður við verkefnið er 45 milljónir króna og mun velferðarráðuneytið leggja fram 25 milljónir og Krabbameinsfélagið tuttugu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×