Körfubolti

43 mánuðir síðan KR tapaði tveimur leikjum í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR.
Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR. Vísir/Eyþór
KR-ingar mæta til Keflavíkur í kvöld í lokaleik níundu umferðar Domino´s deildar karla í körfubolta en stórleikur umferðarinnar verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst klukkan átta.

KR-liðið tapaði með ellefu stigum á heimavelli á móti Njarðvík í síðustu umferð (61-72) og á því á hættu að tapa sínum öðrum leik í röð þegar liðið mætir til Keflavíkur í kvöld.

Það þarf að fara aftur til aprílmánaðar 2013 til að finna síðasta skiptið þar sem KR tapaði tveimur leikjum í röð á Íslandsmóti en Grindvíkingar slógu þá KR-ingar út úr undanúrslitum úrslitakeppninnar á leið sinni að Íslandsmeistaratitlinum 2013. Seinni leikurinn fór fram 11. apríl 2013 eða fyrir rúmum 43 mánuðum.

Brynjar Þór Björnsson er eini leikmaður liðsins í dag sem tók þátt í þessum tveimur tapleikjum í röð fyrir tæpum 44 mánuðum.

Síðan Finnur Freyr Stefánsson tók við KR-liðinu sumarið 2013 hafa hans menn aldrei tapað tveimur leikjum í röð á Íslandsmóti. KR er þannig 16-0 í næsta leik eftir tap á þessum þremur árum og tæpum fjórum mánuðum.

Þetta er í annað skiptið sem KR er í þessari stöðu á þessu tímabili en í fyrra skiptið unnu KR-ingar 97-86 sigur á Þór Akureyri eftir að hafa verið komnir 24 stigum yfir í hálfleik (52-28) og náð mest 33 stiga  forystu í lokaleikhlutanum (84-51). Þór vann síðustu níu mínúturnar 35-13 og lagaði stöðuna.

Ellefu af þessum sextán leikjum hafa unnist með meira en tíu stigum og KR hefur unnið alla sextán leikina með 14,8 stigum að meðaltali.

KR-ingar mæta særðum Keflvíkingum í leiknum í kvöld en Keflavíkurliðið hefur tapað þremur deildarleikjum í röð. Tapleikirnir hafa verið á móti Haukum, Grindavík og Skallagrími.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×