Erlent

43 friðargæsluliðum SÞ rænt í Sýrlandi

Atli Ísleifsson skrifar
Hermennirnir tilheyra friðargæsluveitum SÞ í Sýrlandi (UNDOF) sem eru á Gólanhæðum og var komið á eftir friðarsamkomulag Ísraela og Sýrlendinga árið 1974.
Hermennirnir tilheyra friðargæsluveitum SÞ í Sýrlandi (UNDOF) sem eru á Gólanhæðum og var komið á eftir friðarsamkomulag Ísraela og Sýrlendinga árið 1974. Vísir/AFP
Vopnaðir sveitir sýrlenskra uppreisnarmanna hafa tekið 43 friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna til fanga á Gólanhæðum, milli Ísrael og Sýrlands.

Ránið átti sér stað nærri bænum Al Qunaytirah þar sem Sýrlandsher hefur átt í átökum við sýrlenska uppreisnarmenn. Talsmaður SÞ segir að unnið sé að því að fá friðargæsluliðana lausa.

Uppresinarmenn hafa jafnframt bannað 81 friðargæsluliða að yfirgefa stöðvar sínar nærri bæjum al-Ruwayhina og Burayqa.

Í frétt BBC segir að uppreisnarmenn hafi í gær náð tökum á landamærastöð inn á Gólan-hæðir, sem er undir yfirráðum Ísraelsmanna, eftir margra daga átök.

Friðargæslumennirnir ltilheyra friðargæsluveitum SÞ í Sýrlandi (UNDOF) sem eru á Gólanhæðum og var komið á eftir friðarsamkomulag Ísraela og Sýrlendinga árið 1974. Alls eru 1.223 manns í sveitunum og koma frá Fídjieyjum, Indlandi, Írlandi, Nepal, Hollandi og Filippseyjum.

Gólanhæðir er hernaðarlega mikilvægt landsvæði milli Ísraels og Sýrlands þar sem finna má mikilvægar vatnslindir. Ísrael lagði svæðið undir sig í sex daga stríðinu gegn nálægum arabaríkjum og innlimuðu í reynd landsvæðið árið 1981. Önnur ríki hafa þó aldrei viðurkennt svæðið sem ísraelskt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×