Innlent

Tæplega 900 þúsund krónur safnast vegna Gillz-dóms

Kristján Hjálmarsson skrifar
Um 900 þúsund krónur hafa safnast.
Um 900 þúsund krónur hafa safnast.

Tæplega 900 þúsund krónur hafa safnast til að borga bætur og málskostnað sem Inga Lilja Hafliðadóttir var dæmd til að greiða vegna ummæla sem hún viðhafði um Egil Einarsson. Um 500 þúsund krónur hafa safnast það sem af er degi.



Guðný Rós Vilhjálmsdóttir stendur fyrir söfnuninni en hún kærði Egil Einarsson fyrir nauðgun. Mál hennar var síðan látið niður falla.



Í bréfi sem Guðný Rós birti á Facebook segist hún vonast til að hægt sé að hjálpa Ingu Lilju að greiða upphæðina.



Ummæli sem Inga Lilja viðhafði um Egil á Facebook voru dæmd ómerk og hún dæmd til að greiða Agli 100 þúsund krónur í miskabætur, 30 þúsund krónur í sekt til ríkissjóðs og 800 þúsund krónur í málskostnað. Vegna þessa ákvað Guðný Rós að hefja söfnunina.



„Ég hef lýst upplifun minni af kynnum mínum af Agli og stend föst við þá lýsingu. Inga Lilja hefur stutt þétt við bakið á mér og hefur nú verið refsað í réttarkerfinu fyrir að leggja trúnað á mína frásögn. Í réttarkerfinu er ekki bara ólýsanlega erfitt fyrir þolendur að ná fram réttlæti heldur er þeim refsað sem sýna þeim stuðning,“ segir Guðný Rós í bréfinu.



„Dómsmálið gegn Ingu Lilju er enn ein tilraun Egils til þöggunnar. Með þessu vil ég mótmæla dómnum og hvetja aðra til að sýna Ingu Lilju stuðning. Ég hef látið stofna opinn reikning og öll framlög, stór sem smá eru vel þegin. Þau verða notuð til að greiða málskostnað Ingu Lilju.“



„Nú er klukkan tíu að morgni 3. október, eru rétt liðnir 15 klukkutímar, og þegar hafa safnast 414.000krónur. Við erum orðlausar af þakklæti. Þetta sýnir okkur hvað við getum ef við stöndum saman. Takk, takk, takk. Takk fyrir að standa með okkur og takk fyrir að standa með réttlætinu," segir Guðný Rós í morgun.

Fréttin var uppfærð klukkan 15.10. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×