Erlent

400 mótmælendur handteknir í Stuttgart

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mótmælendur fyrir utan fund AfP í dag.
Mótmælendur fyrir utan fund AfP í dag. visir/afp
Talið er að lögreglan í Stuttgart hafi handtekið rúmlega 400 mótmælendur í dag sem komu saman fyrir utan flokksþing þjóðernisflokksins AfD (Alternative für Deutschland).

Töluverður fjöldi mótmælenda var þar samankominn og talið er að nokkur hundruð hafi reynt að hindra aðkomu að húsnæðinu þar sem flokksþingið fer nú fram. Rúmlega 1000 lögreglumenn voru sendir á vettvang til að stilla til friðar.

Búist er við því að AfD muni að fundi loknum leggja fram heildstæða stefnu í innflytjendamálum sem muni hafna hvers kyns „íslamsvæðingu“ Þýskalands eins og það er orðað í erlendum miðlum. Fundargestir eru um 2000 talsins.

Sjá einnig: Alternative für Deutschland: Flokkur evruandstæðinga sem varð að hægri öfgaflokki

Mótmælendur köstuðu lausamunum í átt að húsinu og lögreglu ásamt því að kveikja í dekkjum. Þá kom einnig til einhverra stympinga milli mótmælenda og lögreglunnar og voru 400 handteknir fyrir ofbeldisfulla hegðun.

Stefna og ummæli leiðtoga AfD hafa vakið mikla reiði á meðal fjölda Þjóðverja. Frauke Petry, einn leiðtogi flokksins, lét þau ummæli falla í kosningabaráttunni í aðdraganda fylkiskosninganna í mars að landamæralögreglu í Þýskalandi ætti að vera heimilt að skjóta flóttamenn sem koma ólöglega til Þýskalands.

AfD var stofnaður árið 2013 af hópi hagfræðinga og löglærðra – þeim Bernd Lucke, Alexander Gauland og Konrad Adam – til að mótmæla ákvörðun Þýskalandsstjórnar að nota skattfé Þjóðverja til að bjarga efnahag evruríkja í syðri hluta álfunnar.


Tengdar fréttir

Þýskir þjóðernissinnar eflast á fylkisþingunum

Niðurstaða fylkiskosninga í Þýskalandi þykir áfall fyrir Merkel og áfellisdómur yfir frjálslyndri innflytjendastefnu hennar. AfD-flokkurinn á nú fulltrúa á átta af sextán fylkisþingum Þýskalands. Berjast fyrir strangari innflytjendalöggjöf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×