Körfubolti

38 ára gamall og með þrjá milljarða í laun á ári í NBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dirk Nowitzki hefur ástæðu til að brosa eftir að nýr samningar var í höfn.
Dirk Nowitzki hefur ástæðu til að brosa eftir að nýr samningar var í höfn. Vísir/Getty
Dirk Nowitzki hefur samkvæmt heimildum bandarískra fjölmiðla skrifað undir nýjan samning við NBA-liðið Dallas Mavericks þar sem hann hefur spilað öll átján tímabilin sín í NBA-deildinni í körfubolta.

Dallas Mavericks var tilbúið að borga honum 50 milljónir dollara fyrir tveggja ára samning eða meira sex milljarða íslenskra króna.  AP- fréttastofan segir frá.

Dirk Nowitzki hefur kannski ekki verið á lúsalaunum undanfarin ár en þær átta milljónir dollara sem hann fékk fyrir síðustu tvö tímabil var þó mun minna en hann hefði getað fengið. Hann „fórnaði" sér til að hjálpa Dallas við að ná í betri leikmenn. Nú fær hann hinsvegar flottan samning.

Nowitzki er orðinn 38 ára gamall og ekki slæmt fyrir íþróttamann á hans aldri að fá 3 milljarða íslenskra króna í árslaun.

Hann fær 25 milljónir dollara fyrir tímabilið 2016-17 og verður þar með launahæsti leikmaður Dallas Mavericks liðsins en Harrison Barnes, sem kemur frá Golden State Warriors, fær 22 milljónir dollara fyrir komandi tímabil.

Dirk Nowitzki hefur sett stefnuna á það að spila tvö tímabil til viðbótar og ná þar með 20 tímabilum í NBA-deildinni. Hann var með 18.3 stig, 65, fráköst og 1,8 stoðsendingu að meðaltali á 31,5 mínútu á síðasta tímabili en skotnýtingin (44,8 prósent) hafði ekki verið lægri síðan á nýliðaárinu.

Dirk Nowitzki hefur nú þegar spilað 1340 deildarleiki Í NBA og skorað í þeim 29491 stig. Hann verður væntanlega á næsta tímabili aðeins sjötti leikmaðurinn til að skora 30 þúsund stig í NBA. Hinir eru Kareem Abdul-Jabbar (38387), Karl Malone (36928), Kobe Bryant (33643), Michael Jordan (32292) og Wilt Chamberlain (31419).

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×