Sport

37 ára gömul og vann sinn fyrsta Ólympíugull

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruth Beitia með Ólympíugullið sitt.
Ruth Beitia með Ólympíugullið sitt. Vísir/Getty
Ruth Beitia frá Spáni varð í nótt Ólympíumeistari í hástökki kvenna á Ólympíuleikunum í Ríó. Þetta var sögulegur sigur fyrir Spánverjann.

Ruth Beitia var þarna að vinna sinn fyrsta Ólympíugull en hún er orðin 37 ára gömul. Beitia er fædd 1. apríl 1979 og þetta voru hennar fjórðu Ólympíuleikar.

Ruth Beitia er elsta konan sem vinnur verðlaun í hástökki kvenna í sögu Ólympíuleikanna en hún bætti þarna tuttugu ára met Stefku Kostadinovu frá Búlgaríu um sex ár. Beitia er einnig elsta konan sem vinnur gull fyrir Spán í öllum greinum á Ólympíuleikunum.

Ruth Beitia stökk 1,97 metra eins og næstu þrjár á eftir henni en felldi ekki fyrr en hún reyndi við 2 metrana. Mirela Demireva frá Búlgaríu felldi einu sinni á leið sinni upp í 1,97 metra og fékk silfrið.

Blanka Vlasic frá Króatíu felldi þrisvar á leiðinni upp í 1,97 metra og fékk því bronsið. Chaunte Lowe sat eftir með sárt ennið þrátt fyrir að fara yfir 1,97 metra en hún komst ekki yfir þá hæð fyrr en í þriðju og síðustu tilraun.

Ruth Beitia hefur hækkað sig á hverjum Ólympíuleikum. Hún varð í 16. sæti í Aþenu 2004, í 7. sæti í Peking 2008 og í 4. sæti í London fyrir fjórum árum. Hún hefur ekki náð að verða heimsmeistari en hefur orðið Evrópumeistari á þremur síðustu Evrópumótum (2012, 2014 og 2016).

Ruth Beitia fagnar sigri.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×