Viðskipti innlent

368 milljón króna hagnaður á 6 mínútum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jón Sigurðsson forstjóri Össurar hagnaðist vel í dag.
Jón Sigurðsson forstjóri Össurar hagnaðist vel í dag. VÍSIR/Valgarður Gíslason
Jón Sigurðsson, forstjóri Össsurar hf., græddi um 368 milljónir á aðeins sex mínútum í dag er hann keypti og seldi hlutabréf í Össuri samkvæmt kaupréttarsamningi sínum.

Í tilkynningu frá kauphöll sem birt var kl. 10.45 í morgun kemur fram að Jón hafi keypt 1,250,000 hluti á genginu 8,55 danskar krónur. Það þýðir að Jón keypti hlutabréf í Össuri fyrir um 170 milljónir íslenskra króna. Aðeins sex mínútum síðar seldi hann þessa 1,250,000 hluti á genginu 23,5 danskar krónur. Fyrir það fékk hann 464,5 milljónir íslenskra króna og því ljóst að á aðeins sex mínútum innleysti Jón hagnað upp á 368 milljónir íslenskra króna.

Ekki náðist í Jón Sigurðsson við vinnslu fréttarinnar en í samtali við, Sigurbjörgu Arnardóttur, fjölmiðlafulltrúa Össurar hf sagði hún að þessi viðskipti Jóns væru samkvæmt kaupréttarsamningi sem gerður hafi verið við hann árið 2012.

„Þetta er samkvæmt samningi frá apríl 2012 og í þessum samningi kemur fram að hægt sé að nýta sér þetta [kaupréttinn - innsk. blaðamanns] á bilinu 24. apríl 2015 og í 12 mánuði eftir það. Hann er að nýta sér þennan rétt innan þess tíma sem hann hefur.“

Össur hagnaðist vel á síðasta ári en hagnaður fyrirtækisins á síðasta ári jókst um 45% milli ára. Hagnaðurinn nam 59 milljónum Bandaríkjadala, sem samsvarar 7 milljörðum íslenskra króna.


Tengdar fréttir

Sala jókst um fimm prósent hjá Össuri

"Niðurstöður ársfjórðungsins eru í takt við okkar væntingar. Þrátt fyrir óhagstæð gengisáhrif er rekstrarárangurinn og afkoman góð,‟ segir Jón Sigurðsson.

Hagnaður Össurar jókst um tæpan helming

Hagnaður Össurar á síðasta ári jókst um 45% milli ára. Hagnaðurinn nam 59 milljónum Bandaríkjadala, sem samsvarar 7 milljörðum íslenskra króna, eða 12% af sölu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×