Erlent

365 gígapixla mynd af Mont Blanc er stærsta ljósmynd allra tíma

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hluti hinnar 365 gígapixla ljósmyndar.
Hluti hinnar 365 gígapixla ljósmyndar.
Alþjóðlegur hópur ljósmyndara, undir forystu hins ítalska Filippo Blengini, birti á dögunum á vefsíðunni in2white.com stærstu ljósmynd allra tíma.

Myndin, sem er panoramaljósmynd af fjallinu Mont Blanc á landamærum Ítalíu og Frakklands, er 365 gigapixlar að stærð og um 45 gigapixlum stærri en fyrri methafi - ljósmynd af Lundúnarborg sem tekin var árið 2013. 

Myndin af Mont Blanc er í slíkri upplausn að nær endalaust má skruna inn án þess að myndgæðin skerðist svo nokkru nemi.

Ljósmyndarahópurinn samanstóð af fimm einstaklingum sem vörðu tveimur vikum á snæviþökktu fjallinu í um 3500 metra hæð en hitastigið var yfirleitt um -10°C. 

Með þremur myndavélum; Canon 70D DSLR, Canon EF 400mm f/2.8 II IS og Canon Extender 2X III sem komið var fyrir á sjálfvirkum þrífóti tók hópurinn alls 70 þúsund ljósmyndir á þrjátíu og fimm klukkustundum. 

Tvo mánuði tók svo að raða ljósmyndunum saman en hér að neðan má sjá stutt myndband frá gerð ljósmyndarinnar. 

Sjálfa ljósmyndina má nálgast á gagnvirkri vefsíðu verkefnisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×