Innlent

34 agabrot á Hrauninu í ár vegna dóps og lyfja

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
121 agabrot er skráð á Litla-Hrauni það sem af er ári.
121 agabrot er skráð á Litla-Hrauni það sem af er ári. MYND/E.ÓL.
Agabrot fanga á Litla-Hrauni vegna fíkniefna- eða lyfjaneyslu eru 34 það sem af er ári. Þar að auki eru tæplega fjörutíu agabrot skráð vegna tilvika þâr sem fangar neita að gefa þvagsýni þegar grunur vaknar um neyslu fíkniefna.

„Ef grunur vaknar eru fangar beðnir um að gefa þvagsýni. Þeir hafa rétt á því að neita sem þeir gera oft en þá fá þeir agabrot á sig. Þá sannast náttúrulega ekki hvort og hvaða efna er neytt,“ segir Tryggvi Ágústsson, deildarstjóri og staðgengill forstöðumanns á Litla-Hrauni.

Hann segist halda að í þeim tilfellum er fangar neiti af gefa þvagsýni sé það vegna neyslu. 121 agabrot er skráð á Litla-Hrauni það sem af er ári. „Neysla og neitun um þvagsýni eru þannig um tveir þriðju agabrotanna.“

Tryggvi segir fíkniefna- og lyfjaneyslu fanga vera eilífðarvandamál. „Þetta hefur flætt hérna inn á síðustu misserum. Þessu er smyglað hingað inn eftir ýmsum leiðum. Við teljum að það mesta komi með heimsóknargestum,“ segir hann.

Tryggvi segir lyfið Suboxone vera mest áberandi. „Þetta er uppáhaldslyfið í fangelsinu og virðist vera orðið aðalfangadópið,“ segir hann en af umræddum 34 agabrotum eru 22 tilvik vegna misnotkunar á Suboxone. Lyfinu er ætlað að aðstoða fólk við að hætta að nota fíkniefni og er ætlað þeim sem gangast undir meðferð við lyfjafíkn. SÁÁ notar lyfið í meðferð sinni á ópíumfíklum.

Í þremur tilvikum var um að ræða misnotkun á Suboxone ásamt örðum fíkniefnum. Fjögur tilvik voru vegna neyslu kókaíns, fjögur vegna lyfsins Lyrica, tvö vegna amfetamíns og tvisvar var um kannabis að ræða. Lyfið Lyrica er flokaveikilyf er flokkað sem ávanabindandi lyf af embætti Landlæknis.

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga, segir að aldrei hafi verið eins mikið af lyfjum og hörðum fíkniefnum í umferð á Litla-Hrauni eins og hefur verið síðustu ár. Hann segir að ef minnka eigi neyslu lyfja og harðari fíkniefna í fangelsinu þurfi að minnka eftirspurnina. „Við höfum ítrekað bent á að á meðan mikið atvinnuleysi er í fangelsunum, litlir möguleikar á námi, ekkert verknám, engar tómstundir og hert agaviðurlög, þá eykst neyslan.“

Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×