Erlent

322 hreindýr drápust eftir að eldingu laust niður

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Í hópi fallina má finna bæði fullorðin dýr og kálfa.
Í hópi fallina má finna bæði fullorðin dýr og kálfa. Mynd/HÅVARD KJØNTVEDT /Norwegian Environment Agency
322 hreindýr drápust eftir að eldingu laust niður í fjalllendi í Telemark-sýslu í Noregi. Vísindamenn hjá norsku náttúruvísindastofnuninni segja að þeir hafi vitað til þess að hreindýr hafi drepist eftir eldingar en ekki í slíku magni. Sagt er frá vef NRK.

„Það var þrumuveður hérna fyrir skemmstu svo okkur finnst líklegast að elding hafi grandað þeim,“ segir Knut Nylend í samtali við NRK. „Dýrin liggja eins og hráviði á frekar litlu svæði svo þau hafa líklega staðið frekar þétt þegar eldingunni laust niður.“

Áætlað er að um 10.000 hreindýr séu á svæðinu en umræddur hópur stóð á bletti sem var um áttatíu metrar í þvermál. Vísindamenn munu nota tækifærið til að kanna hvort einhver af dýrunum 322 hafi verið haldin sjúkdómi sem leggst á heila hreindýra. Slíkur faraldur kom upp í dýrum fyrr á þessu ári.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvað verður gert við hræin, hvort þau verði urðuð á staðnum eða hvort þau verði flutt annað og fargað með öðru móti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×