Erlent

30 særðir eftir sprengjuárás í Bogota

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Rúmlega 30 manneskjur særðust þegar sprengja sprakk í Bogota, höfuðborg Kólumbíu í dag. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu borgarstjóra sprakk sprengjan nærri leikvangi þar sem nautaat fer allajafna fram. BBC greinir frá. 

Sprengjan sprakk á vettvangi þar sem dýraverndunarsinna undirbjuggu mótmæli gegn nautaatinu og eru margir hinna særðu lögreglumenn sem kallaðir höfðu verið á vettvang til þess að fylgjast með mótmælunum. Mótmæli hafa farið fram vikulega á svæðinu, eftir að borgaryfirvöld ákváðu að leyfa á ný nautaat.

Borgarstjóri Bogota, Enrique Penalosa, hefur heitið því að yfirvöld muni hafa hendur í hári þeirra sem bera ábyrgð á árásinni en enn er ekki ljóst hver stendur að baki henni.

Ekki hafa borist fregnir af mannfalli vegna árásarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×