Erlent

3,5 milljarðar fyrir upplýsingar um hver grandaði MH17

Atli Ísleifsson skrifar
298 manns fórust þegar MH17-vél Malaysia Airlines var skotin niður í austurhluta Úkraínu 17. júlí síðastliðinn.
298 manns fórust þegar MH17-vél Malaysia Airlines var skotin niður í austurhluta Úkraínu 17. júlí síðastliðinn. Vísir/AFP
Óþekktir aðilar hafa boðið jafnvirði 3,5 milljörðum króna fyrir gögn sem sanna það hver grandaði MH17 vél malasíska flugfélagsins Malaysia Airlines í austurhluta Úkraínu í júlí síðastliðinn.

Þýska rannsóknarfyrirtækið Wifka tilkynnti í yfirlýsingu að það hafi verið ráðið til að rannsaka atvikið þar sem 298 manns fórust. Kom fram að einkaaðilar, sem ekki vilja láta nafn síns getið, hafi boðið verðlaunaféð.

Wifka heitir því að nafngreina ekki uppljóstrara og býður að hafa milligöngu um að útvega þeim nýjar persónuupplýsingar. Talsmenn Wifka segjast vilja skýra hver eða hverjir hafi skotið vélina niður, hver fyrirskipaði árásina, hverjir hafi ákveðið að hylja yfir ýmislegt sem tengist verknaðinum og hvað hafi orðið um vopnin sem notuð voru í árásinni.

Í samtali við NBC hvatti Josef Resch, framkvæmdastjóri Wifka, verðandi uppljóstrara til að hafa varann á og hafa samband við fyrirtækið í gegnum lögmenn, ekki tölvupóst eða síma.

Í frétt Times segir að verðlaunafénu sé lýst sem því hæsta sinnar tegundar í sögunni, en Bandaríkjastjórn hafði áður boðið jafnvirði þrjá milljarða króna fyrir upplýsingar sem leiddu til handsömunar hryðjuverkaleiðtogans Osama bin Laden.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×