Innlent

28 tíma seinkun á flugi WOW til Dublin

Jóhann ÓLI EIÐSSON skrifar
Umrædd vél er leiguvél sem félagið notar þar sem afhending á nýrri Airbus vél tafðist.
Umrædd vél er leiguvél sem félagið notar þar sem afhending á nýrri Airbus vél tafðist. Vísir/vilhelm
28 klukkutíma seinkunn varð á flugi WOW Air til Dublin. Vélin átti að leggja af stað frá Keflavík klukkan sex í morgunn en brottför hefur verið seinkað til klukkan tíu í fyrramálið.

„Við vorum mætt til Keflavíkur klukkan fjögur og komin inn í vél. Síðan tók við bið í vélinni áður en okkur var hent út vegna bilunar,“ segir farþegi í samtali við fréttastofu.

Farþegar biðu síðan í sex klukkustundir á flugvellinum áður en þeim var tjáð að flugið myndi frestast enn frekar. Þeir hafi því keyrt til Reykjavíkur á nýjan leik.

„Síðan fengum við skilaboð um að flugið ætti að fara í loftið núna klukkan ellefu í kvöld þannig við keyrðum aftur til Keflavíkur. Þegar við komum þangað var okkur tjáð að fluginu hefði aftur verið seinkað.“

Aðeins erlendir farþegar eiga rétt á hóteli

„Okkur þykir þetta miður en flugöryggi er númer eitt, tvö og þrjú hjá okkur,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW, í samtali við fréttastofu.

Flugvélin sem um ræðir er af gerðinni Boeing 757 og er leiguvél hjá WOW frá bandaríska flugfélaginu National Air Cargo. „Við tókum hana inn tímabundið til að brúa bil hjá okkur eftir að afhending tafðist á glænýrri Airbus A321 vél,“ segir Svanhvít. Nýja vélin á að koma til landsins næstu helgi.

„Erlendum farþegum hefur verið útvegað hótel,“ segir Svanhvít. Aðspurð segir hún að íslenskir farþegar eigi ekki rétt á hóteli verði seinkun hér á landi. Gert sé ráð fyrir að þeir fari til síns heima. „Við ítrekum það að okkur þykir leitt að svona hafi farið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×