Erlent

260 Indverjar látið lífið í ár við smíði HM-leikvanga í Katar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Aðstæður verkamanna í Katar eru bágbornar.
Aðstæður verkamanna í Katar eru bágbornar. vísir/afp
Indverska sendiráðið í Katar hefur fengið 3781 kvörtun frá indverskum verkamönnum í landinu, samanborið við 3943 allt árið í fyrra.

Þá hafa um 260 Indverjar sem fluttir hafa verið til Katar vegna fyrrnefndrar uppbyggingar látist á árinu – þar af 20 í nóvember.  279 indverskir verkamenn létust í landinu í fyrra.  Þetta kemur fram í frétt katarska miðilsins The Peninsula um málið.

Mörg þúsund Indverjar starfa í landinu, ekki síst í tengslum við uppbyggingu á íþróttaleikvöngum og nærumhverfi þeirra fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu. Það fer fram í landinu árið 2022 og hefur verið umdeilt fyrir margra hluta sakir, svo sem vegna meintra mútuþægni og vinnuaðstæðna verkamanna sem hafa unnið að smíði leikvanganna síðustu misseri.

Áætlað hefur verið að um 4000 verkamenn muni láta lífið í aðdraganda mótsins. Sumir hafa sagt þá tölu varlega áætlaða enda hafi nú þegar á annað þúsund manns látist við smíði leikvanganna – nú þegar 7 ár eru þangað til flautað verður til leik. Indverska sendiráðið hefur þá einnig gefið það út að um 105 Indverjar sitji í katörskum fangelsum og aðrir 195 bíði þess að verða vísað úr landi.

Að sögn indverskra yfirvalda vinnur sendiráðið nú hörðum höndum við að vinna bót á aðstæðum verkamannanna í landinu en samkvæmt CIA World Factbook eru Indverjar um 18 prósent íbúa Katar.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×