Fótbolti

25 ára táraflóð ensku landsliðanna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson og Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Laura Bassett grét eftir að England féll úr leik á HM kvenna, rétt eins og Paul Gascoigne gerði í undanúrslitaleik Englands og Þýskalands í undanúrslitum HM á Ítalíu árið 1990.
Laura Bassett grét eftir að England féll úr leik á HM kvenna, rétt eins og Paul Gascoigne gerði í undanúrslitaleik Englands og Þýskalands í undanúrslitum HM á Ítalíu árið 1990. Vísir/Getty
Enska þjóðin hreifst með frammistöðu enska kvennalandsliðsins á HM í Kanada. Áhuginn jókst með hverjum sigrinum og þegar þær ensku tryggðu sér sæti í undanúrslitum keppninnar með því að leggja gestgjafana að velli varð sprenging í bæði umfjöllun og áhuga um ensku „ljónynjurnar“.

Draumur Englendinga um að komast í úrslit keppninnar tók enda í fyrrinótt, þegar varnarmaðurinn Laura Bassett varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark í uppbótartíma gegn ríkjandi heimsmeisturum Japans. Þær japönsku fögnuðu sætum 2-1 sigri en eftir sat Bassett í tárum. Og enska þjóðin grét með.

Karlalandsliðið hefur lengi verið í sviðsljósinu og langt er síðan menn fór að lengja í annan titil eftir að England varð heimsmeistari árið 1966. Biðin virtist ætla að taka enda þegar enska landsliðið með hinn skrautlega Paul Gascoigne sem sinn besta mann komst í undanúrslit HM á Ítalíu fyrir aldarfjórðungi. Þar tapaði England hins vegar fyrir verðandi heimsmeisturum Þýskalands í vítaspyrnukeppni.

Fyrr í leiknum hafði Gascoigne gert sig sekan um slæm mistök. Hann fékk gult spjald fyrir að tækla Thomas Berthold en það þýddi að „Gazza“ hefði misst af úrslitaleiknum hefði England komist alla leið.

Gascoigne gat ekki haldið aftur af tárunum og hann var ekki í jafnvægi til að taka sína spyrnu í vítaspyrnukeppninni. Það gerði Chris Waddle í hans stað – hann brenndi af og Þýskaland komst áfram.

Dæmin eru fleiri og það kann að vera dæmigert að loks þegar enska kvennalandsliðið fékk athygli almennings og stærstu fjölmiðlanna á Englandi varð niðurstaðan jafn grátleg og hjá enska kvennalandsliðinu í Vancouver í fyrrinótt. En viðbrögðin létu ekki á sér standa og hlaut hin seinheppna Bassett gríðarlegan stuðning úr öllum mögulegum áttum eftir leik.

Landsliðsþjálfarinn Mark Sampson, sem sjálfur virtist grátbólginn í viðtölum eftir leik, gekk fremstur í þeim hópi.

„Hún átti þetta ekki skilið. Það verður litið á hana sem hetju og ekkert annað. Hún hefur verið hugrökk, sterk og haldið þessum hópi saman.“

Laura Bassett var algjörlega niðurbrotin í leikslok.Vísir/Getty
Sárustu töp ensku landsliðanna á stórmótum undanfarinn aldarfjórðung

HM karla 1990

4-3 tap í vítakeppni fyrir Þýskalandi í undanúrslitum.

Skúrkar: Stuart Pearce og Chris Waddle (klikkuðu á vítum).

EM karla 1996

6-5 tap í vítakeppni fyrir Þýskalandi í undanúrslitum.

Skúrkar: Gareth Southgate (klikkaði á víti).

HM karla 1998

4-3 tap í vítak. fyrir Argentínu í 16 liða úrslitum

Skúrkar: David Beckham (rautt spjald). Paul Ince og David Batty (klikkuðu á vítum).

HM karla 2002

2-1 tap fyrir Brasilíu í átta liða úrslitum eftir sigurmark Ronaldinho frá miðju.

Skúrkur: Markvörðurinn David Seaman.

EM karla 2004

6-5 tap í vítakeppni fyrir Portúgal í átta liða úrslitum.

Skúrkar: David Beckham og Darius Vassell (klikkuðu á vítum).

HM karla 2006

3-1 tap í vítakeppni fyrir Portúgal í átta liða úrslitum.

Skúrkar: Wayne Rooney (rautt spjald). Frank Lampard, Steven Gerrard og Jamie Carragher (klikkuðu á vítum).

HM kvenna 2011

4-3 tap í vítakeppni fyrir Frakklandi í átta liða úrslitum.

Skúrkar: Claire Rafferty og Faye White (klikkuðu á vítum).

EM karla 2012

4-2 tap í vítakeppni fyrir Ítalíu í átta liða úrslitum.

Skúrkar: Ashley Young og Ashley Cole (klikkuðu á vítum).

HM kvenna 2015

2-1 tap fyrir Japan í undanúrslitum eftir sjálfsmark í uppbótartíma.

Skúrkur: Laura Bassett (sjálfsmark).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×