Erlent

23 látnir eftir miklar frosthörkur í Evrópu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það snjóaði á Ægisif.
Það snjóaði á Ægisif. Vísir/AFP
Minnst 23 eru látnir eftir miklar frosthörkur víðs vegar um Evrópu undanfarna tvo daga. Flóttamenn og heimilislausir eru meðal þeirra sem verst hafa orðið úti. AFP greinir frá.

Tíu hafa látist í Póllandi, þar af sjö í gær en þar var allt að fjórtán stiga frost. Alls hafa 53 látist í Póllandi vegna ofkælingar frá 1. nóvember á síðasta ári. Sjö hafa látist á Ítalíu, þar af fimm heimilislausir.

Töluverð snjókoma hefur verið í mið-Ítalíu undanfarna daga og voru flugvellirnir í Bari og Brindisi lokaðir vegna snjókomunnar. Í Tékklandi hafa þrír látist vegna ofkælingar.

Einn fannst látinn í St. Pétursborg í Rússlandi en í Moskvu hefur hitinn mælst lægstur um -30 stig að næturlagi. Búist er við að fleiri muni verða kuldanum að bráð um helgina enda búist við áframhaldandi kuldabylgju.

Einnig snjóaði mikið í Istanbúl í Tyrklandi þar sem snjódýpt mældist mest 65 sentimetrar en aflýsa þurfti fjölmörgum flugferðum vegna úrkomunnar. Í Grikklandi hafa yfirvöld flutt fjölmarga flóttamenn í betri híbýli vegna kuldans en í Grikklandi eru um 60 þúsund flóttamenn, flestir frá Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×