Körfubolti

23 ár frá flottustu fréttatilkynningu körfuboltasögunnar: „Ég er kominn aftur“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan.
Michael Jordan. Vísir/Getty
19. mars er dagurinn þegar körfuboltakappinn Michael Jordan mætti aftur inn á körfuboltavöllinn eftir að hafa lagt skóna á hilluna í fyrsta sinn.

Daginn áður sendi Jordan frá sér fréttatilkynningu sem var stutt og skorinort. „I’m back“ eða „Ég er kominn aftur“ á íslensku. Einfaldleiki og mikilvægi þessarar fréttatilkynningar gerir hana að einni þeirri flottustu í sögu körfuboltans.

Fyrir nákvæmlega 23 árum síðan, 19. mars 1995, þá lék Michael Jordan sinn fyrsta leik með Chicago Bulls eftir endurkomuna en liðið mætti þá Indiana Paces. Jordan mætti til leiks í treyju númer 45.





Jordan hafði yfirgefið leikið tæpum tveimur árum fyrr og reynt fyrir sér í hafnarbolta. Þá var hann þrefaldur NBA-meistari, hafði þrisvar verið kosinn besti leikmaður deildarinnar og sjö sinnum verið stigahæsti leikmaður deildarinnar.

Margir hafa minnst þessara tímamóta og þar á meðal er vefsíðan theundefeated.com en þar má finna flotta samantekt á endurkomu Jordan í NBA.





Michael Jordan skoraði 19 stig í fyrsta leiknum á móti Indiana Pacers en hitti aðeins úr 7 af 28 skotum sínum (25 prósent) og Chicago Bulls tapaði með 7 stigum.

Jordan skoraði síðan 55 stig í fimmta leiknum sínum sem var á móti New York Knicks í Madison Square Garden.

Chicago Bulls komst ekki í gegn Orlando Magic í úrslitakeppninni þetta sumar en Michael Jordan og félagar mættu tilbúnir tímabilið eftir og enduðu á því að vinna NBA-deildina þrjú ár í röð frá 1996 til 1999.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×