Viðskipti erlent

200.000 starfsmenn anna ekki eftirspurn eftir iPhone 6

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Starfsmenn Foxconn í Kína vinna dag og nótt að framleiðslu símanna.
Starfsmenn Foxconn í Kína vinna dag og nótt að framleiðslu símanna. VÍSIR/AFP
Samstarfsfyrirtæki Apple í Kína, hátækniframleiðandinn Foxconn, á í stökustu erfiðleikum með að framleiða nógu marga hluti í iPhone 6 snjallsímann til að anna eftirspurn.

„Við erum að framleiða um 140 þúsund iPhone 6 plús og 400 þúsund iPhone 6 á hverjum degi og við höfum aldrei framleitt annað eins magn. Þetta er þó ekki nóg til þess að anna öllum forpöntunum,“ sagði heimildarmaður innan fyrirtækisins í samtali við blaðamann Wall Street Journal.

iPhone 6 síminn er með 4,7 tommu skjá en skjár iPhone 6 plús er 5,5 tommur að stærð.  Foxconn hefur átt í erfiðleikum með að framleiða stærri skjáina og er það ástæða þess að færri iPhone 6 plús verða til á degi hverjum.

Foxconn er með um 100 framleiðslulínur að fullum störfum við að framleiða símann allan sólarhringinn í Zhengzhou í Kína. Það eru því rúmlega 200 þúsund manns sem starfa nú einungis við það að framleiða símana vinsælu og leitar Foxconn nú dyrum og dyngjum að nýju starfsfólki.

Þetta vandamál virðist þó koma upp í hvert sinn sem Apple hleypir nýrri vöru af stokkunum og eiga samstarfsaðilar oft í stökustu vandræðum með að mæta þeirri gífurlegu eftirspurn sem myndast fyrir vörum fyrirtækisins.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×