Innlent

200 fulltrúar skoða um fimm þúsund staði

Freyr Bjarnason skrifar
Bæði þekktir og lítt þekktir ferðamannastaðir verða hluti af gagnagrunninum.
Bæði þekktir og lítt þekktir ferðamannastaðir verða hluti af gagnagrunninum. Fréttablaðið/stefán
Tæplega tvö hundruð samráðsfulltrúar hafa verið tilnefndir af sveitarfélögum og öðrum hagsmunaaðilum í ferðaþjónustunni til að koma að skráningu gagnagrunns. Hann er hluti af verkefni um kortlagningu á auðlindum ferðaþjónustunnar sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn á landsvísu.

„Þeir tilgreina hvernig eignarhaldið er, hvernig á að komast á staðinn, hvernig aðgengið er, hvort það er salernisaðstaða þar, bílastæði og fleira,“ segir Halldór Arinbjarnarson, upplýsingastjóri Ferðamálastofu, spurður út í starf samráðsfulltrúanna.

Verkefnið var boðið út og var verkfræðistofan Alta með hagstæðasta tilboðið. Það hljóðaði upp á fimmtán milljónir króna og samkvæmt því þurfa fulltrúarnir, sem fá ekkert greitt fyrir vinnu sína, að vera búnir að kortleggja allt að sex þúsund staði í byrjun nóvember næstkomandi.

Að sögn Halldórs er niðurstaðan sú að rúmlega fimm þúsund staðir verða kannaðir og eru flestir þeirra í Húnaþingi vestra og Borgarbyggð, eða um 400 á hvorum stað. „Þetta er risastórt verkefni og það verður gaman að sjá hvernig til tekst,“ segir hann.

Litið er á gagnagrunninn sem fyrsta áfanga í langtímaverkefni sem snýst um að dreifa ferðamönnum betur yfir tíma og rúm, allt árið um kring.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×