Innlent

20 milljarða velta: Getur skipt sköpum fyrir þjóðarbúið

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Árni Páll Árnason og Frosti Sigurjónsson.
Árni Páll Árnason og Frosti Sigurjónsson. vísir/ernir/pjetur
Stangveiði í ám og vötnum á Íslandi veltir tæplega 20 milljörðum á ári. Stangveiðileyfi eru undanþegin virðisaukaskatti samkvæmt túlkun ríkisskattstjóra með vísan til laga um fasteignaleigu. Veltan er því mikil og gæti skilað umtalsverðu í þjóðarbúið. Fer hún vaxandi með fjölgun ferðamanna á ári hverju.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu það harðlega í gær að engar skýringar hefðu komið fram á því hvers vegna ekki hafi verið gengið lengra við fækkun undanþáguheimilda í virðisaukaskatti í fjárlögum næsta árs. 



Hægt að hlúa betur að því sem mikilvægt er að viðhalda

Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segir ástæðu til að skoða málið betur. Með því að fækka undanþáguheimildum sé hægt að lækka skuldir ríkissjóðs, bæta heilbrigðis- og menntakerfið og öðru sem mikilvægt sé að viðhalda. Enn sé verið að skoða breikkun virðisaukaskattstofnsins.

„Það hefur oft komið til tals að þetta þurfi að skoða. Ég hef á tilfinningunni að þetta sé eitt af því sem ráðuneytið mun skoða og geri fastlega ráð fyrir því. Það er af nógu að taka í stórum ríkisrekstri. Hægt að lækka skuldir ríkissjóðs, hlúa betur að þeim innviðum sem eru sameiginlegir eins og heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og öðru sem mikilvægt er að viðhalda,“ segir Frosti.

Þá segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, það geta skipt sköpum að fækka undanþáguheimildumí virðisaukaskatti.

„Það blasir auðvitað við að það er eftir gríðarlega miklu að slægjast. Þess vegna er það eiginlega óskiljanlegt og það sýnir það að ríkisstjórninni gengur ekkert til að einfalda kerfið. Þegar menn sjá sjá að að menn reyna ekki einu sinni að fara þá leið að skapa einhverja nýja almenna reglu um að afþreyingarþjónusta við ferðamenn skuli almennt vera í einhverju virðisaukaskattsþrepi,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við Vísi.

„Tölurnar sýna hvað þetta getur verið mikilvægt enda getur þetta skipt sköpum um fjölda marga þætti í heilbrigðiskerfinu og geta skipt miklu máli til að að tryggja þjónustu atvinnulausra og svo framvegis og framvegis. Við þurfum að fara yfir þetta í nefndinni og bind vonir við það að það sé hægt að fá nefndina til að hreyfa sig eitthvað í þessu máli,“ bætir Árni við.

Uppfært:

Ekki var farið með rétt mál í upphafi fréttar þegar talað var um hversu miklu veiðileyfi myndu skila þjóðarbúinu. Nákvæmar tölur liggja ekki fyrir og hefur fréttin því verið leiðrétt. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×