Innlent

18 stiga hiti á Vopnafirði í gær

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Vopnafirði.
Frá Vopnafirði. Vísir/Pjetur
Hlýtt loft úr suðri var yfir landinu í gær og mældist mestur hiti á Vopnafirði. Þar mældist hitastigið 18 gráður. Þá sló sunnanvindurinn í storm á allnokkrum mælistöðvum samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.

Nú standa yfir breytingar á hitastigi þar sem kuldaskil liggja yfir landinu og skipta því í raun í tvennt. Enn þá er hlýtt á austanverðu landinu þar sem einnig er hvassviðri og rigning. Vestan megin er hitinn hins vegar farinn að lækka og samkvæmt Veðurstofunni stefni hingað svokallaður samskilahali.

Honum fylgir hvass vindur og hryðjukennd úrkoma. Mögulega mun krapi eða snjór sjást á fjallvegum þar sem hitinn mun lækka ört.

Þá mun draga verulega úr vindi eftir hádegi. Sunnan- og vestanlands verða skúrir eða slydduél viðloðandi en yfirleitt verður þurrt annars staðar.

Á miðvikudag:

Suðaustlæg átt 5-10 m/s og þurrt og bjart að mestu norðantil á landinu. Annars stöku skúrir eða él, en úrkomumeira á Suðausturlandi. Vægt frost, en hiti víða 0 til 5 stig við ströndina.

Á fimmtudag:

Breytileg átt 3-8, skýjað með köflum eða bjartviðri og yfirleitt þurrt, en vaxandi suðaustan átt og þykknar upp vestantil á landinu um kvöldið. Kólnar lítið eitt.

Á föstudag:

Allhvöss eða hvöss austan- og suðaustanátt. Talsverð rigning eða slydda sunnan- og vestantil, en annars slydda eða snjókoma með köflum. Heldur hlýnandi veður.

Á laugardag:

Suðvestlæg átt. Stöku él vestantil á landinu, slydda eða snjókoma austantil. Hiti 0 til 5 stig við sjóinn, en vægt frost til landsins.

Á sunnudag:

Vaxandi sunnan átt með rigningu og hlýnandi veðri.

Á mánudag:

Útlit fyrir suðvestanátt með skúrum eða éljum og kólnandi veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×