Innlent

18 stiga hiti á Raufarhöfn

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Raufarhöfn.
Frá Raufarhöfn. Vísir/Pjetur.
Landsmenn finna nú skýr merki sumarsins, þegar hlý suðlæg átt leikur um landið á þessum fyrsta degi júnímánaðar. Í öllum landshlutum mælast tveggja stafa hitatölur í dag.

Gæðunum er þó misskipt. Á annesjum sunnan- og vestanlands rétt skríður hitinn í tíu gráðurnar. Þar fylgir úrkoma með sunnanáttinni, sem Vatnajökull og aðrir stórjöklar hálendisins gleypa í sig og hita upp og skila síðan niður í byggðir norðan- og austanlands sem hlýjum sunnanblæ og jafnvel með sólskini.

Hitatölur dagsins endurspegla að sumarið er komið. Raufarhöfn er hlýjasti staður landsins í dag en þar hefur hitinn farið í 18,1 stig, samkvæmt yfirliti Veðurstofunnar. Í Ásbyrgi hefur mælst 17,5 stiga hiti og á Egilsstöðum 17,6 stig. Á þessum stöðum var líka glaðasólskin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×