Viðskipti innlent

18% færri gjaldþrot

Sæunn Gísladóttir skrifar
Nýskráningum hefur fjölgað í rekstri gististaða og veitingareksturs sem sennilega má rekja til aukningu ferðamanna.
Nýskráningum hefur fjölgað í rekstri gististaða og veitingareksturs sem sennilega má rekja til aukningu ferðamanna. Vísir/Vilhelm
Gjaldþrot einkahlutafélaga síðustu 12 mánuði, frá nóvember 2014 til október 2015, hafa dregist saman um 18% í samanburði við 12 mánuði þar á undan. Alls voru 660 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á tímabilinu segir í frétt á vef Hagstofunar. Hlutfallslega hefur gjaldþrotum í flutningum og geymslu fækkað mest, eða um 35% á síðustu 12 mánuðum, auk þess sem gjaldþrotum í fjármála- og vátryggingastarfsemi hefur fækkað um 33% frá fyrri 12 mánuðum. Gjaldþrotum síðustu tólf mánuði hefur fjölgað mest í leigustarfsemi og ýmissi sérhæfðri þjónustu, eða um 10% borið saman við 12 mánuði þar á undan.

Nýskráningum einkahlutafélaga síðustu 12 mánuði, frá nóvember 2014 til október 2015, hefur fjölgað um 11% í samanburði við 12 mánuði þar á undan. Alls voru 2.263 ný félög skráð á tímabilinu. Hlutfallsleg fjölgun nýskráninga er mest í fasteignaviðskiptum, 43% á síðustu 12 mánuðum, en meðal annarra greina þar sem nýskráningum hefur fjölgað má nefna rekstur gististaða og veitingarekstur (35%) og framleiðslu (33%). Mest hlutfallsleg fækkun nýskráninga síðustu 12 mánuði var í flutningum og geymslu, eða um 19% borið saman við næstu 12 mánuði þar áður.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×