Innlent

160 þúsund króna sekt fyrir að brugga krækiberjavín

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Maðurinn bar því við fyrir dómi að hann hefði ætlað að gera saft úr berjunum.
Maðurinn bar því við fyrir dómi að hann hefði ætlað að gera saft úr berjunum. vísir/auðunn
Karlmaður á sextugsaldri var í Héraðsdómi Austurlands fyrir helgi dæmdur til að greiða 160 þúsund krónur í sekt fyrir að hafa bruggað krækiberjavín. Alls fundust 95 lítrar af heimagerðu víni í íbúð mannsins.

Í símaskýrslu sem lögregla tók af hinum sakfella viðurkenndi hann að hafa átt vínið og að hafa bruggað það.

Önnur skýrsla var síðar tekin af manninum. Þar kom fram að hann hefði keypt bruggunartækin og leiðbeiningar í víngerðarverslun hér á landi. Ásetningur hans hefði verið að „búa til áfengi eins og allir landsmenn væru að gera“. Þótti honum undarlegt að það væri hægt að„fara út í búð og kaupa allt til víngerðar“ og svo sé „þetta bara allt í einu orðið ólöglegt“.

Síðar meir, fyrir dómi, hafði framburður hans breyst. Sagði hann frá því að hann hefði ætlað að safta krækiberin. Hann hafi hins vegar ekki gengið rétt frá þeim og það útskýrði áfengisinnihald þeirra.

Í niðurstöðu dómsins kom fram að sannað þætti að maðurinn hefði ætlað sér að brugga vínið. Ekki þótti unnt að telja að misskilnings á réttarreglum hefði gætt enda hefði lengi verið bannað hérlendis að brugga eigið vín. Auk sektarinnar voru tæki til víngerðar gerð upptæk.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×