Innlent

16 þúsund hafa greitt atkvæði utan kjörfundar

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Atkvæði greitt utan kjörfundar í Perlunni.
Atkvæði greitt utan kjörfundar í Perlunni. vísir/vilhelm
Nær 16.500 manns af öllu landinu höfðu um miðjan dag í gær kosið utan kjörfundar samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

Íslenskir ríkisborgarar sem flutt hafa lögheimili sitt til útlanda eftir 1. desember 2007 eiga kosningarétt við forsetakosningarnar.

Íslenskir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili erlendis í meira en átta ár geta ekki sótt um það núna hjá Þjóðskrá Íslands að komast á kjörskrá til að taka þátt í forsetakosningunum.

„Það er ekki lengur til það sem heitir að kæra sig inn á kjörskrá heldur þurfa menn að sækja um að verða teknir inn á kjörskrá. Umsóknin þurfti að berast fyrir 1. desember 2015. Það er hlutverk borgarans að fylgjast með því að hann sé á kjörskrá,“ greinir Ástríður Jóhannesdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Þjóðskrár Íslands, frá.

Kjósendur á erlendri grundu bera sjálfir ábyrgð á því að koma atkvæðum sínum til skila á Íslandi. Senda skal atkvæði til sýslumanns eða kjörstjórnar í því umdæmi þar sem kjósandi telur sig vera á kjörskrá, að því er segir á kosningavef innanríkisráðuneytisins. Atkvæðið verður að berast fyrir lok kjörfundar á kjördag svo hægt sé að taka það til greina.

Ástríður bendir á að á vef Þjóðskrár, skra.is, geti kjósendur kannað hvar þeir eru á kjörskrá.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 21. júní 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×