Innlent

126 Íslendingar hafa beðið Google um að gleyma sér

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Eftir að Evrópudómstóllinn úrskurðaði um að einstaklingar í Evrópu hafi rétt til þess að tæknirisinn Google gleymi þeim, hafa fjölmargar beiðnir um slíkt verið sendar til fyrirtækisins.

126 Íslendingar hafa sent beiðni til Google þar sem þeir biðja um að sé nafni þeirra flett upp á leitarvélum fyrirtækisins, birtist ákveðin síða ekki. Fyrirtækið varð við um þriðjungi beiðnanna. Google birti nýverið stafræna skýrslu um beiðnir í Evrópu frá því að dómurinn féll í maí.

Google hefur lokað á 282 síður vegna beiðna frá aðilum sem tengjast Íslandi.

Í heildina hefur Google borist 153,680 beiðnir frá Evrópubúum og fyrirtækið hefur samþykkt 41,5 prósent þeirra. Flestar beiðnirnar tengjast Facebook, Profileengine og Youtube.

Þá birtir Google dæmi um beiðnir sem fyritækinu hefur borist. Meðal annars segja þeir frá að ítölsk kona hafi beðið um að áratugsgömul frétt um morð á eiginmanni hennar, þar sem nafn hennar kom fram, birtist ekki á leitarvélum fyrirtækisins. Google varð við beiðninni.

Google varð einnig við beiðni þýskrar konu um að frétt um nauðgun hennar komi ekki upp þegar nafni hennar er flett upp. Þá fékk fyrirtækið fjölda beiðna frá ítölskum karlmanni sem bað um að um 20 greinar um handtöku hans vegna auðgunarbrota sem hann framdi í starfi sínu. Google varð ekki við beiðni mannsins.

Einnig sendi læknir í Bretlandi beiðni um að 50 greinar um misheppnaða skurðaðgerð yrðu ekki lengur tengdar honum. Google fjarlægði þrjár greinnanna þar sem fram koma persónuupplýsingar um manninn. Hinar birtast enn sé nafni hans flett upp.

Ekkert dæmanna sem Google nefnir eru frá Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×