Lífið

12 ára sópran sem elskar Jackson

Adda Soffia Ingvarsdóttir skrifar
Benedikt Gylfason
Benedikt Gylfason Vísir/Valli
„Ég hef sungið frá því að ég man eftir mér,“ segir Benedikt Gylfason, 12 ára sópransöngvari sem vakið hefur mikla athygli.

Í fyrra söng hann á Frostrósartónleikum og þann 30. desember næstkomandi syngur hann með stórsöngvurunum Garðari Thor Cortes og Margréti Eiri Hjartardóttur á tvennum jólatónleikum í Grafarvogskirkju.

„Mér finnst mjög gaman að syngja, bæði klassíska tónlist og popptónlist,“ segir Benedikt, en í mestu uppáhaldi hjá honum eru þeir Michael Jackson, Páll Óskar, Garðar Thor Cortes og Kolbeinn Ketilsson. Benedikt er vanur að koma fram því auk þess að syngja hefur hann leikið í Dýrunum í Hálsaskógi, sungið í La Bohème og Carmen og fyrir jólin er hann í jólasýningu Skoppu og Skrítlu.

En hvort finnst honum nú skemmtilegra að leika eða syngja? „Það er rosalega erfitt að gera upp á milli, mér finnst eiginlega skemmtilegast að blanda þessu bara saman,“ segir hann.

Á tónleikunum 30. desember, sem verða kl. 16 og 20, verða sungin þekkt jólalög í hátíðlegum búningi og er Benedikt spenntur að syngja með Garðari. „Við tökum saman lagið Himinganga, en við tókum það líka á Frostrósartónleikunum. Þetta verður bara gaman,“ segir hinn hæfileikaríki Benedikt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×