Innlent

11 ára drengur kom móður sinni til bjargar: „Tel það alveg öruggt að hann hafi bjargað lífi mínu“

Bjarki Ármannsson og Kjartan Atli Kjartansson skrifa
Hér má sjá mæðginin á meðan Hrefna var inni á spítala. Hún telur ljóst að viðbrögð sonar síns hafi bjargað lífi hennar.
Hér má sjá mæðginin á meðan Hrefna var inni á spítala. Hún telur ljóst að viðbrögð sonar síns hafi bjargað lífi hennar.
Hrefna Samúelsdóttir telur að viðbrögð sonar síns hafi bjargað lífi hennar. Hrefna hneig niður í sumar, þegar hún var heima hjá sér ásamt tveimur af þremur sonum sínum, sá eldri ellefu ára og sá yngri fjögurra ára. Hún fann að ekki var allt með felldu hjá sér og bað elsta son sinn að hringja á Neyðarlínuna.

„Ég tel það alveg öruggt að hann hafi bjargað lífi mínu,“ segir Hrefna stolt af syni sínum, Ingvari Óla Sigurðssyni, og bætir við:

„Það var heljarinnar ábyrgð sett á hann. Að hringja á Neyðarlínuna, tala við mennina þar. Að horfa á eftir móður sinni fara í sjúkrabíl á meðan hann var heima og passaði litla bróður sinn. Þetta er hetjudáð.“

Þegar á spítalann var komið uppgötvaðist að Hrefna var með blóðtappa í heila á þremur stöðum. „Ég var í lífshættu og þess vegna segi ég að viðbrögð Ingvars hafi bjargað lífi mínu. Það hefði ekki mátt skeika miklu.“

Hrefna segir frá hetjudáð sonar síns og lýsir upplifuninni að verða fyrir því að fá blóðtappa í samtali við Vísi. Hún hefur ekki áður tjáð sig um áfallið, en atvikið átti sér stað í júlí. Hrefna var á spítala í mánuð og við tók tveggja mánaða endurhæfing í kjölfarið. Hún er nýlega komin heim til sín og er batinn, að hennar sögn, hraðari en við var búist.

Fann að eitthvað var að

Hrefna, sem er búsett á Hvammstanga ásamt eiginmanni sínum og þremur sonum, var á fullu að undirbúa fyrir hátíðina Eldur í Húnaþingi, sem er árlegur viðburður þar í júlí.

„Hér er svona hverfakeppni, hvaða hverfið skreytir best. Ég var úti að skreyta og fann að það var eitthvað að. Ég man reyndar ekkert eftir þessu en mér er sagt að ég hafi gengið inn í húsið og beðið Ingvar að hringja á Neyðarlínuna. Hann hringdi víst í Neyðarlínuna og talaði við þann sem svaraði. Hann rétt mér víst líka símtólið og ég talaði víst eitthvað við starfsmanninn líka.“

Hrefna segir svo frá því þegar sjúkrabíll kom og sótti hana. Ingvar, sem þá var ellefu ára en varð tólf ára í október, gætti fjögurra ára bróður síns. Faðir Ingvars kom svo fimm mínútum síðar, að sögn Hrefnu, en hann var staddur með miðjusoninn í grennd við Hvammstanga.

Lömuð á vinstri hlið

„Ég er öryrki tímabundið. Ég fékk blótappa á heila á þremur stöðum og lamaðist á vinstri helmingi líkamans. Ég er lögblind í dag, hef ekkert hægra sjónsvið, á báðum augum. En sjónin getur komið tilbaka. Þessu er gefið tvö ár að jafna sig og ég er vongóð um það,“ segir Hrefna.

Hún var flutt á Landspítalann þar sem hún lá í fjórar vikur. „Ég man nánast ekkert eftir fyrstu tveimur vikunum, bara einhverjar stuttar glefsur. Ég man aðeins meira eftir þriðju vikunni, einhverjum samtölum og svona.“ Að lokinni spítalavist tók við tveggja mánaða endurhæfing sem hefur skilað Hrefnu aukinni orku og hreyfigetu:

„Ég er að reyna að þjáfla mig upp. Ég er farin að geta labbað aðeins, en ég treysti mér til dæmis ekki að ganga í snjó. Og það snjóar bara og snjóar!“

Hefur fengið mikið hrós

Hrefna segir að framfarirnar séu töluverðar síðan hún hneig niður í júlí. „Já, það er hellingur kominn til baka. Læknarnir hafa sagt við mig að þeir bjuggust ekki við því að ég væri búin að ná mér á svona stuttum tíma,“ útskýrir Hrefna.

Hrefna segir að sonur hennar hafi fengið mikið hrós fyrir að sýna rétt viðbrögð í erfiðum aðstæðum. „Þetta vakti mikla athygli hér á Hvammstanga og var mikið talað um hversu rétt hann brást við. Hann fékk mikið hrós í kjölfarið og er örugglega ennþá að fá hrós,“ segir móðirin stolt.

Hrefna er ánægð með þessi viðbrögð Ingvars.

„Það er alveg ljóst að margt fullorðið fólk hefði „panikkað“ í þessum aðstæðum. En hann gerði allt rétt og sýndi svo mikla stillingu og rétta hegðun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×