Skoðun

100, 10, 1

Guðrún Högnadóttir skrifar
Síðastliðna viku bar ég gæfu til að vinna með sjö stjórnendateymum úr hópi nokkurra farsælustu fyrirtækja og stofnana landsins: tvö þeirra fögnuðu 100 ára starfsafmæli sl. ár, tvö þeirra eru skráð í erlendar kauphallir og tvö þeirra samanstanda af hópi framsækinna frumkvöðla sem sækja fram af íslensku hugviti með sannreyndum árangri.

Og einn hópurinn ber ábyrgð á stjórnskipan lýðveldisins og þjóðmenningu – hvorki meira né minna!

Ef ég ætti að kortleggja DNA árangurs þessara einstöku hópa íslenskra forgöngumanna er gott að minnast orða Jóhannesar Kjarval: „Það er heilmikið fyrirtæki að vera manneskja.“





  • Í stefnu og sókn tel ég að þessir einstaklingar horfi meðvitað og ómeðvitað til næstu 100 ára og spyrji sig – hvert er varanlegt framlag okkar til nær- og fjarsamfélags okkar? Þó svo að allt sé breytingum háð, þá mótar sú langtímasýn ramma daglegrar starfsemi, sá tilgangur kallar á ábyrgð og ánægju allra starfsmanna og hjálpar þeim að halda fókus í dagsins önn.

  • Í áætlanagerð og samningum sé ég þessa stjórnendahópa taka mið af taktísku 10 mánaða plani. Þau sækja fram af festu og aga og hafa kjarkinn til að taka ákvarðanir með því að treysta á kjarnahæfni sinna vinnustaða. Þetta hafa þau lært af oft biturri reynslu og áföllum til jafns við tímabil farsældar, sem og með því að læra af reynslu og rannsóknum annarra. 

  • Í ákvarðanatöku og áhrifum sé ég þessa stjórnendahópa muna að það er augnablikið sem gildir. Hver þessara leiðtoga hefur áhrif á hundruð manna innan og utan sinna vinnustaða á hverjum sólarhring – með nærveru sinni og fjarveru. Hvern 1asta dag – er það orðið, athöfnin og augnablikið sem gildir. „There is no try – only do“ sagði spekingurinn Yoda.


Og eitt enn. Þetta eru vinnustaðir sem bera virðingu fyrir fólki. Þrátt fyrir lögskipað vald, glæsilegan flota og framleiðslueiningar, sögulegar eignir, flottustu ferlin og tækin, magnaða hönnun og hugbúnað muna þessir stjórnendur að hið eina sanna samkeppnisforskot liggur í fólkinu. Þeir þekkja hvernig einstaklingar blómstra þegar þeir fá traustið, frelsið og tækifærið til að bera ábyrgð. Þeir þekkja hvernig hópar magna mátt einmana hugmyndar – hvernig stök frumefni mynda saman töfraformúlur sem breyta og bæta heimsmynd okkar. Þeir þekkja hvernig teymi sem taka mið af trúverðugum gildum byggja upp menningu árangurs. Og þeir vita að öflug vinnustaðamenning er hið sanna samkeppnisforskot.

Ég hlakka til að að fylgjast með vaxandi íslenskum leiðtogum hafa áhrif á komandi kynslóðir. Fagnaðu hverjum degi eins og þú myndir lifa í 100 ár. Hugsaðu um áhrif hverrar ákvörðunar a.m.k. næstu 10 mánuði. Njóttu hverrar stundar eins og þú lifir bara þennan 1 dag. Carpe diem.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×