Innlent

„Vonandi verður þetta til þess að Vesturbæjarstórveldið fellur ekki“

Birgir Olgeirsson skrifar
Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur tekið við þjálfun karlaliðs KR í knattspyrnu. Ásmundur Einar Daðason, formaður þingflokks framsóknar, treystir Willum til að sinna sínum störfum á þingi samhliða þjálfarastarfinu.
Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur tekið við þjálfun karlaliðs KR í knattspyrnu. Ásmundur Einar Daðason, formaður þingflokks framsóknar, treystir Willum til að sinna sínum störfum á þingi samhliða þjálfarastarfinu. Vísir
„Vonandi verður þetta til þess að Vesturbæjarstórveldið fellur ekki,“ segir Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, spurður út í ráðningu meistaraflokks KR í knattspyrnu karla á Willum Þór Þórssyni, þingmanni Framsóknarflokksins, sem þjálfara liðsins.

Samningur Willums við KR er til loka tímabilsins en síðasti leikur liðsins verður þann 1. október. Alþingi er nú í sumarfríi en verður sett á nýjan leik 15. ágúst en Willum sagði við Vísi í gær að hann verði klár í kosningabaráttuna með Framsóknarflokknum í haust. 

Spurður hvort Willum Þór hafi farið fram á leyfi frá störfum sem þingmaður, í ljósi þess að tímabilinu í úrvalsdeild karla í knattspyrnu verður hvergi nærri lokið 15. ágúst næstkomandi, segir Ásmundur Einar Willum meta það sjálfur hvort það þurfi þegar þar að kemur.

 „Ég treysti honum vel til að sinna sínum störfum samhliða þessu. Hann segir sjálfur að tímabilið sé langt komið þegar þingið kemur saman og hann metur bara sjálfur hvort hann getur sinnt vinnu eða öðru með, það er nú yfirleitt leikið á kvöldin, æfingar og leikir á kvöldin,“ segir Ásmundur.

„Það er fáum sem ég treysti betur til að bjarga Vesturbæingum heldur en Willum Þór Þórssyni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×