Innlent

„Við verðum að virða lög eins og aðrir“

Jakob Bjarnar skrifar
Hið listræna frelsi Rassa hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig. Facebook tók eina auglýsinguna niður og önnur virðist brotleg við áfengis- og tóbaksvarnarlög.
Hið listræna frelsi Rassa hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig. Facebook tók eina auglýsinguna niður og önnur virðist brotleg við áfengis- og tóbaksvarnarlög.
„Við verðum að virða lög eins og aðrir,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, í samtali Vísi.

Hún segir að VG muni taka umdeilda auglýsingu niður af síðum sínum en þar blandar og skenkir Ragnar Kjartansson Katrínu kokteil og svo reykja þau saman vindil í góðu yfirlæti.

Vísir greindi frá því að auglýsingin brýtur líkast til í bága við áfengislög sem og lög um tóbaksvarnir. Kata segir að hugsunarleysi hafi ráðið því að auglýsingin fór í birtingu.

„Eins og kunnugt er þá er Ragnar Kjartansson á lista hjá okkur. Og hann í raun og veru fékk algjört listrænt frelsi til að taka þátt í kosningabaráttunni með þessu hætti, með þessum myndböndum sínum en það hefur ekki gengið áfallalaust. Facebook henti einu út hjá sér og nú kemur upp þessi spurning hvort vera kann að þetta brjóti tóbaks og áfengisvarnarlög? Og það viljum við að sjálfsögðu ekki gera,“ segir Katrín.

Hún viðurkennir fúslega að VG-liðar hafi hreinlega ekki hugsað út í þetta. „Og við biðjumst að sjálfsögðu afsökunar ef við höfum gerst brotleg við lög. Og erum í þessum orðum töluðum að taka myndbandið úr birtingu.“

Katrín segist ekki sérfróð um hvernig það gangi fyrir sig að taka efni sem birst hefur á netinu úr birtingu en byrjunin er í það minnsta sú að auglýsingin verður tekin niður af öllum síðum VG.

„Kannski er þetta kostnaðurinn við listrænt frelsi, að maður sést ekki fyrir. En, við eigum að virða lög eins og aðrir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×