Innlent

"Við vanmátum skuldir heimilanna“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á flokksstjórnarfundinum í  dag.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á flokksstjórnarfundinum í dag.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í morgun að flokkurinn hefði vanmetið skuldir heimilanna í aðdraganda kosninganna.

Þá hefði framganga flokksins í Icesave-málinu reynst honum erfið.

Árni Páll sagði að flokkurinn hefði tapað miðju stjórnmálanna yfir til Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.

Samfylkingin fékk 12,9 prósenta fylgi í alþingiskosningunum hinn 27. apríl sl. Það er lakasta útkoma flokksins frá því hann bauð fyrst fram í kosningunum árið 1999. Formaður flokksins leitaðist við að skýra ástæður þessa í framsöguerindi sínu á flokksstjórnarfundinum.

„Við vanmátum skuldir heimilanna og Icesave-málið og framganga okkar í því var okkur erfið. Við fengum á okkur ásýnd þeirra sem voru að tala fyrir því að almenningur ætti að axla byrðar að óþörfu. Það var vond ásýnd og hún var ekki rétt. Og kannski birtumst við eins og valdaflokkur, það kemur mikið fram í viðbrögðum frá flokksmönnum. Að við höfum birst sem valdaflokkur (...) og að sumu leyti misst þessa tengingu við hina breiða fjölda í landinu. Fylgiskannanir staðfesta þetta að sumu leyti,“ sagði Árni Páll í framsöguerindi sínu.



Misstu sjónar á hlutverki Samfylkingarinnar

„Við töpuðum meira fylgi til Framsóknar en Bjartrar Framtíðar. Þó vorum við mjög upptekin af því allt síðasta ár að keppa við Bjarta Framtíð. Við töpum nærri tvöfalt meira fylgi til Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks samanlagt heldur en til Bjartrar Framtíðar. Við töpuðum með öðrum orðum þeirri miðju stjórnmálanna sem kom til liðs við okkur og gerði Samfylkinguna að breiðfylkingu og gerði okkur mögulegt að hafa lykiláhrif á samfélagsþróunina. Því má segja að við höfum misst sjónar á þeirri staðreynd að Samfylkingin er ekki gamaldags vinstriflokkur í hefðbundnum skilningi. Hún var stofnuð til að vera fjölbreytt breiðfylking, frá hinu ysta vinstri og yfir miðjuna. Og við misstum sjónar á því og náðum ekki að halda í þetta fylgi,“ sagði Árni Páll. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×