Innlent

„Við trúum því að skónum hafi verið komið fyrir“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Grímur Grímsson, yfirmaður rannsóknarinnar.
Grímur Grímsson, yfirmaður rannsóknarinnar. Vísir/Anton
Lögreglan telur að skóm Birnu Brjánsdóttur hafi verið komið fyrir við Hvaleyrarlón við í Hafnarfjarðarhöfn. Til rannsóknar er hvort að það hafi verið gert vísvitandi til að villa um fyrir lögreglu. RÚV greinir frá.

„Við trúum því að skónum hafi verið komið fyrir,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókn á láti Birnu í samtali við Vísi. „Við göngum ekki út frá því að hún hafi farið úr skónum þarna, þar með hlýtur einhver að hafa komið þeim fyrir þarna.“

Ekkert sé þó upplýst um hvort að það hafi verið gert til þess að villa um fyrir lögreglu en Grímur segir að það sé til rannsóknar.

Lögregla hefur á undanförnum dögum lagt áherslu á að kortleggja ferðir rauða Kia Rio bílsins frá klukkan 7 á laugardagsmorgninum til 11 en hefur litlar upplýsingar til að moða úr. Farsímagögn hafa ekki gagnast við að varpa ljósi á för bílsins.

Ekki gert ráð fyrir yfirheyrslum á morgun

Lögregla óskaði einnig eftir myndskeiðum sem ökumenn á ferð um stórt svæði í kringum höfuðborgarsvæðið á laugardeginum kynnu að búa yfir en Grímur segir að lítið hafi komið út úr því enn sem komið er.

Í dag var endanlega staðfest að lík það sem fannst í fjörunni við Selvogsvita á sunnudaginn var af Birnu. Rannsókn hefur leitt það í ljós að henni var ráðinn bani.

Yfirheyrslum yfir öðrum manninum sem grunaður er um aðild að málinu stendur enn yfir en gert er ráð fyrir að henni ljúki nú á næsta klukkutíma. Engin játning liggur fyrir í málinu og að sögn Gríms er ekki áætlað að yfirheyrslur fari fram á morgun.

„Ég á ekki von á því að þeir verði yfirheyrðir á morgun. Við höldum áfram að setja saman málið.“


Tengdar fréttir

Yfirheyrðu Møller í gær

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur hinn maðurinn, Nikolaj Olsen, ekki verið yfirheyrður eftir að lík Birnu fannst á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×