Innlent

„Við þurfum að standa saman í þessu lífi“

Birta Björnsdóttir skrifar
Hluti þeirra sem atti kappi við Hjörvar og Helga í dag.
Hluti þeirra sem atti kappi við Hjörvar og Helga í dag.
Stórmeistarar og verðandi stórmeistarar öttu kappi í klukkufjöltefli í Smáralindinni í dag.

En tilgangurinn var ekki bara að hafa gaman.

„Við erum hér að safna fyrir sumarbúðir fatlaðra barna í Reykjadal,“ sagði Sigríður Gunnarsdóttir, nemi í Háskóla Íslands en hún og samnemendur hennar sjá um að skipuleggja söfnunina eftir ýmsum leiðum.

Hjörvar Steinn var prúðbúinn í Smáralind.
Þátttakendur létu reyna á leikni sína á taflborðinu gegn stórmeisturunum Helga Ólafssyni og Hjörvari Steini Grétarssyni. Leikarinn Ólafur Darri Ólafsson var þeirra á meðal.

„Ég tefli nú ekki að staðaldri. Aðallega af því ég er ekki nógu góður. Ég þarf að setja mig meira inn í þetta,“ sagði Ólafur Darri.

Kynnir dagsins var Þorsteinn Guðmundsson, en hann sagði það hægara sagt en gert að gera grín að skákinni.

„Ég legg ekki í að semja skákbrandara sjálfur svo ég leitaði á netinu í morgun að skákbröndurum sem ég þýddi sjálfur. Þeir eru algerlega óskiljanlegir," sagði Þorsteinn. „Ég ætla að athuga hvort stórmeistarnir nái bröndurunum. Almenningur kemur allavega ekki til með að fatta neitt.“

Fjölteflið sem er skipulagt af nemendum Háskóla Íslands með stuðningi Skákakademíu Reykjavíkur. Sem fyrr segir var tilgangurinn fyrst og fremst söfnun fyrir sumarbúðir fatlaðra barna í Reykjavdal. Og það er gaman að taka þátt þegar málefnið er gott.

„Það er bara lífsnauðsynlegt,“ sagði Ólafur Darri. „Við þurfum að standa saman í þessu lífi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×