Erlent

„Við myndum ekki líða það ef Ísland gerði það sem Íran er að gera“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mike Pompeo er utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Mike Pompeo er utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Mike Pompeo, nýr utanríkisráðherra Bandaríkjanna, notaði Ísland sem dæmi til þess að verja hertar aðgerðir ríkisstjórnar Donald Trump gegn Írönum á blaðamannafundi í utanríkisráðuneytinu í gær.

Bandarísk yfirvöld tilkynntu nýlega að þau hefðu ákveðið að draga sig út úr fjölþjóðlegum kjarnorkusamningi við Íran, í andstöðu við vilja helstu bandamanna Bandaríkjanna.

Í vikunni var einnig tilkynnt um bandarísk yfirvöld ætli sér að beita hörðustu refsiaðgerðum í sögunni gegn Íran. Setti Pompeo fram tólf kröfur sem yfirvöld í Bandaríkjunum krefjast þess að írönsk yfirvöld verði við.

Á blaðamannafundi gærdagsins í utanríkisráðuneytinu var Pompeo spurður út í það hvernig hann sjái fyrir sér að fá bandamenn Bandaríkjanna í lið með sér í þeim aðgerðum sem bandarísk yfirvöld hafa boðað.

Sagði hann að kröfur bandarískra yfirvalda væru eðlilegar og að sú hegðun sem bandarísk yfirvöld telja að Íranir hafi sýnt af sér undanfarin ár væri ekki liðin kæmi hún frá einhverju öðru ríki.

„Við myndum ekki líða það ef Ísland gerði það sem Íran er að gera,“ sagði Pompeo hlæjandi. „Við myndum ekki líða það ef Tjad gerði það sem Íran er að gera. Ég er bara að fara í gegnum stafrófið hérna.“

Myndband af ummælum Pompeo má sjá hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Pompeo boðar aðgerðir gegn Íran

Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna boðaði í ræðu sinni aðgerðir bandarískra stjórnvalda gegn Íran.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×