Enski boltinn

„Við með boga og örvar en Bayern með sprengjuvörpu“ | Tólf bestu ummæli Klopp

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jürgen Klopp var kynntur sem nýr knattspyrnustjóri Liverpool í morgun.
Jürgen Klopp var kynntur sem nýr knattspyrnustjóri Liverpool í morgun. vísir/getty
Jürgen Klopp heillaði menn upp úr skónum á sínum fyrsta blaðamannafundi sem knattspyrnustjóri Liverpool í morgun þegar hann var kynntur til leiks.

Aðspurður hvernig hann lýsir sjálfum sér í ljósi þess að José Mourinho kallaði sig þann sérstaka þegar hann tók við Chelsea sagði Klopp: „Ég er sá venjulegi.“

Klopp hefur ávallt verið afar skemmtilegur á blaðamannafundum og í viðtölum. ESPN tók saman tólf bestu ummæli Þjóðverjans í gegnum tíðina

1. Um ekkert sérstakan leikmannaferil sinn

„Mér tókst aldrei að færa það inn á völlinn sem var í gangi í heilanum á mér. Ég hafði hæfileika til að spila í fimmtu deildinni en heila til að spila í efstu deild. Niðurstaðan var að ég spilaði allan ferilinn í annarri deild.“

2. Eftir tapið gegn Bayern í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2013

„Það eina sem ég get sagt er að þetta var frábært. Ólympíuleikarnir voru haldnir í Lundúnum. Veðrið var gott og allt var fínt. Vandamálið er að úrslitin voru ömurleg.“

vísir/getty
3. Fyrir leik gegn Juventus í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar

„Við eigum fyrir höndum erfiðasta verkefni sem hægt er að fá í fótbolta: Að mæta ítölsku liði sem þarf aðeins að ná jafntefli.“

4. Um ræðu sem hann hélt í hálfleik eftir dapra frammistöðu Dortmund

„Ég sagði við strákana í hálfleik að fyrst við værum nú mættir þá væri kannsi sniðugt að spila smá fótbolta.“

5. Um muninn á sér og Arsene Wenger, knattspyrnustjóra Arsenal

„Hann vill hafa boltann, spila fótbolta og senda boltann á milli manna. Það er eins og hljómsveit sem spilar lag sem heyrist ekki. Ég er meira fyrir þungarokkið.“

6. Um ríginn við Bayern München og hvernig það er að berjast við risann á hverju ári

„Við erum með boga og örvar og ef við miðum vel getum við hitt skotmarkið. Vandamálið er að Bayern er með sprengjuvörpu.“

7. Eftir að hann missti Mario Götze til Bayern

„Hann er að fara því Guardiola elskar Götze. Þetta er mér að kenna. Ég get ekki minnkað og lært spænsku.“

vísir/getty
8. Um enn eina baráttuna við Bayern München

„Ef við endum í öðru sæti mun ég finna trukk og keyra honum í gegnum garðinn hjá mér. Ef enginn annar fagnar með mér mun ég gera það einn.“

9. Eftir 3-1 sigur á Bayern í febrúar 2011

„Þegar Dortmund vann hér síðast fyrir 19 árum voru flestir leikmennirnir mínir enn á brjósti.“

10. Um kaupin á Henrikh Mkhitaryan

„Mkhitaryan smellpassar í okkar lið eins og asni á fötu. Það sem hann býður upp á er nákvæmlega það sem við þurfum á að halda.“

11. Þegar Mats Hummels var orðaður við Manchester united í júlí 2014

„Ef þessi saga er ekki kjaftæði skal ég éta kústskaft.“

12. Um biðina eftir Hummels þegar hann var lengi frá vegna meiðsla

„Við munum bíða eftir honum eins og góð eiginkona að bíða eftir manninum sínum sem er í fangelsi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×