Innlent

„Við getum ekki sætt okkur við þetta“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Forystumenn ASÍ telja að forsendur kjarasamninganna, sem undirritaðir voru í desember, séu brostnar útaf launahækkunum framhaldsskólakennara og félaga í BHM. Formaður Eflingar segir að almenningur í landinu eigi að vera jafnt settur varðandi það sem er til skiptana. 

Framhaldsskólakennarar skrifuðu undir nýja kjarasamninga á dögunum, og tíu af ellefu aðildarfélögum BHM skrifuðu undir saminga við Reykjavíkurborg í nótt.  Samningar þessir fela í sér mun meiri launahækkanir en um var samið á hinum almenna vinnumarkaði í lok síðasta árs. 

Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að forystumenn innan ASÍ telji að þetta gangi þvert á forsendur þeirra kjarasamninga sem voru undirritaðir í desember. Þar var gert ráð fyrir hóflegum launahækkunum til að draga úr verðbólgu og auka kaupmátt. Sigurður Bessason, formaður stéttafélagsins Eflingar, segir greinilegt að ríki og sveitarfélög hafi tekið upp nýja launastefnu.

„Eftir að við skrifuðum undir okkar samninga er greinilegt að viðsemjendur okkar hafa tekið upp önnur vinnubrögð og aðrar nálganir varðandi hvað er til skiptana í samfélaginu,“ segir hann.

Launahækkanir á almennum markaði voru 2,8%. Framhaldsskólakennarar fá aftur á móti tæplega 16% launahækkun á næstu tólf mánuðum.

Samningar Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins eru til eins árs en til stendur að semja til lengri tíma í haust. Sigurður segir að í þeim viðræðum verði farið í hart

„Við getum ekki sætt okkur við þessar prósentutölur. Það kann hinsvegar að verða til þess að það jafnvægi sem menn vilja stefna að í samfélaginu fari einfaldlega út um gluggann,“ segir Sigurður.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×