Innlent

„Við erum fundin, börnin á myndinni“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Systkinin Anna Margrét og Rafn.
Systkinin Anna Margrét og Rafn. Mynd/Jónína Jóhannsdóttir
Listmálarinn Jónína Jóhannsdóttir málaði myndir af átta ára stúlku og fimm ára dreng árið 1982 að ósk móður þeirra, Margrétar Pétursdóttur. Margrét lét lífið eftir baráttu við krabbamein árið 1984 og tók Jónína eftir dánartilkynningu í dagblaði.

Myndirnar höfðu aldrei verið sóttar og kunni Jónína engin deili á börnunum auk þess sem runnið hafði í gleymsku hvað móðirin hét. Myndirnar geymdi hún hins vegar í rúm þrjátíu ár þar til hún ákvað á laugardaginn að gera tilraun til að finna börnin með aðstoð Facebook.

„Ég stend í flutningum og rakst á myndirnar,“ segir Jónína í samtali við Vísi. „Ég týmdi ekkert að henda þeim. Maður passar þetta. Maður passar börnin.“

Jónína deildi því myndunum á Facebook og gerði færsluna sína opna öllum. Ekki stóð á landsmönnum sem deildu myndinni sem nú hefur verið deilt rúmlega 1800 sinnum.

„Þetta snart fólk sem fannst strax vænt um þessi móðurlausu börn“ segir Jónína. Fólk hafi hafist handa við að gúgla, farið á Íslendingabók til að komast að því hvað móðirin hét enda minnti Jónínu í fyrstu að móðirin héti Ásta en ekki Margrét.

„Þetta var svo mikil samvinna,“ segir Jónína.

Myndin af systkinunum sem málað var eftir.
„Þetta er ég og bræður mínir!“

Jónína man eftir því þegar Margrét bað hana um að mála myndirnar af hinni átta ára gömlu Önnu Margréti og hinum fimm ára gamla Rafni eftir ljósmyndum. Jónína segist hafa verið nýbúin að eignast sitt annað barn.

„Þá er ég heimavinnandi og er að dúllast fyrir fólk,“ segir Jónína. Hún hafi ekkert þekkt Margréti heitna heldur hafi einhver líklegast bent henni á sig.

Jónína segir það hafa verið afskaplega skemmtilega stund þegar henni bárust Facebook-skilaboð frá myndefninu sjálfu, Önnu Margréti.

„Við erum fundin, börnin á myndinni,“ stóð meðal annars í skilaboðum Önnu Margrétar til Jónínu. „Þetta er ég og bræður mínir!“

Búin að hlæja mjög mikið

Anna Margrét segir að það hafi verið virkilega skemmtilegt að sjá myndirnar af sér og bróður sínum. Mjög margir hafi sett sig í samband við Önnu og sagt að þá grunaði að hún væri stelpan á myndunum.

„Það er búið að hlæja mjög mikið. Mér finnst þetta ótrúlega skemmtilegt,“ segir Anna sem átti enn eftir að færa bræðrum sínum tíðindin þegar blaðamaður ræddi við hana. Rafn, sá eldri, væri ekki á Facebook en hún hefði „taggað“ yngri bróður sinn Þorgrím Andra. Hann virtist þó ekki hafa séð það.

Jónína Jóhannsdóttir.
„Ég er eins og pínulítið barn í eigin heimi. Ég á eftir að hringja í þá og láta þá vita,“ segir Anna Margrét. Hún hafi verið hjá föður sínum þegar ábendingin barst um myndirnar. Pabbi hennar hafi skoðað myndirnar en hann hafði ekki hugmyndum að Margrét heitin hefði beðið Jónínu um að teikna myndirnar.

Jónína hefur boðið Önnu Margréti að koma og sækja myndirnar. Það ætlar Anna að þiggja með þökkum. Hún segir gaman að vita hvað móðir þeirra heitin hafi verið að bralla á þessum tíma. Þau hafi öll verið ung þegar Margrét lést og muni mismikið eftir mömmu sinni.

„Það var ótrúlega mikils virði að vita til þess að hún hefði verið að gera þetta. Enginn hafði hugmynd.“


Tengdar fréttir

Fékk svar við bréfi til látins föður

Bandaríska stúlkan Ashlynn Marracino fékk svar við bréfinu frá hópi fólks í um 600 kílómetra fjarlægð frá heimabæ hennar í Texas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×