Lífið

„Við erum að keppa á móti Robert Downey Jr. og fleiri töffurum“

Baldvin Þormóðsson skrifar
Baldvin Zophoníasson er búinn að vera að springa síðan hann frétti að myndin yrði sýnd í Toronto.
Baldvin Zophoníasson er búinn að vera að springa síðan hann frétti að myndin yrði sýnd í Toronto. vísir/arnþór
Ég var svo glaður í hjartanu þegar ég frétti þetta. Ég er búinn að vera springa síðan, segir leikstjórinn Baldvin Zophoníasson en mynd hans Vonarstræti hefur verið valin til sýningar á Toronto International Film Festival þar sem hún mun keppa til verðlauna í tveimur flokkum.

Myndin mun keppa til aðalverðlauna hátíðarinnar og einnig svonefndra Discovery verðlauna sem er flokkur upprennandi leikstjóra og segir kvikmyndaspekúlöntum hvaða leikstjórum þeir eigi að fylgjast með á komandi árum og því mikill heiður fyrir Baldvin að vera í þeim flokki.

Við erum að keppa þarna á móti Robert Downey Jr. og fleiri töffurum, segir Baldvin en hefur hann von á að myndin muni sigra í sínum flokki?

Mér er alveg sama, segir Baldvin hlæjandi. Ég er bara kominn þangað og mér finnst það geðveikt, við erum öll að fara sem stóðum að myndinni og ég ætla bara að hafa ótrúlega gaman af þessu.

Nóg eftir á dagskránni

Leikstjórinn er staddur í Noregi þessa dagana að kynna myndina á markaðssýningu þar en það eru nóg af ferðalögum á dagskránni.

Nú á næsta mánuði er ég síðan að fara til Zürich, Toronto og Þýskalands, segir Baldvin en fær hann engan tíma til þess að slappa af á milli kvikmyndahátíða?

Jú, ég fer í viku til Spánar með fjölskyldunni, það verður svona sumarfríið, segir leikstjórinn og hlær.

Aðspurður hvort að það séu engin fleiri verkefni á döfinni hjá leikstjóranum segir hann það vera nóg að gera.

Ég er með tvær sjónvarpsseríur í bígerð í haust og síðan erum við Biggi nýbúnir að klára handritið fyrir næstu mynd, segir Baldvin en þá vísar hann til Birgis Arnar Steinarssonar, einnig þekktur sem Biggi í Maus, en þeir félagar skrifuðu handritið að Vonarstræti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×