Lífið

„Við ætlum að bítta okkur leiðina upp í danshús“

Baldvin Þormóðsson skrifar
Dansararnir tveir finna fyrir skorti á íslensku danshúsi.
Dansararnir tveir finna fyrir skorti á íslensku danshúsi. vísir/valli
„Verkefnið er byggt upp á einföldum metnaði. Það er, við ætlum að opna hið fyrsta íslenska danshús,“ segir danshöfundurinn Ásrún Magnúsdóttir, en hún leggur nú af stað í ansi áhugavert verkefni ásamt kollega sínum, Alexander Roberts.

Ásrún lýsir því hvernig bíómyndir á Íslandi hafa sitt eigið bíóhús, leikrit hafa leikhús, tónlist hefur tónlistarhús en dansinn vantar danshús.

„Ætlunin er að gera eitthvað sem aldrei hefur verið gert áður á Íslandi. Við ætlum að bítta okkur leiðina upp í danshús.“

Ef til vill hefur fólk heyrt af sögunni um kanadíska bloggarann Kyle MacDonald sem byrjaði með eina rauða bréfaklemmu og bíttaði þar til hann var kominn með einbýlishús en Ásrún og Alexander sóttu innblástur í þá reynslusögu.

Í stað bréfaklemmurnar ætla þau að byrja með stórt dansverk með fremstu dönsurum á Íslandi.

„Hver sem er getur skipt við okkur á því verki fyrir eitthvað sem hefur hærra gildi og svo skiptum við því fyrir eitthvað annað og svo koll af kolli,“ lýsir Ásrún sem vonast eftir því að standa uppi með danshús í lokin.

Tvíeykið tekur einungis á móti hlutum sem hægt er að skipta en ekki peningum. „Við erum mjög opin fyrir hverju sem er, hvort sem það er efnislegt eða óefnislegt,“

Þeir sem hafa áhuga á að skipta við dansteymið geta haft samband í gegnum Facebook-síðu átaksins Viltu bítta? eða sent tölvupóst á asrunm@gmail.com.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×