Erlent

„Verðum ekki mikið vör við skógareldana“

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Um 900 slökkviliðsmenn berjast við mikla skógarelda rétt utan við Los Angeles og hafa tæplega 2000 heimili rýmd. Þar af að hafa 17 brunnið til grunna.

Eldurinn kom upp 65 kílómetra norðvestur af Los Angeles í úthverfi nærri Santa Clarita.

Þykkur svartur reykur stígur upp frá svæðinu og liggur yfir Los Angeles.

Svæðið þar sem eldarnir loga er erfitt yfirferðar og hefur það hamlað slökkvistarfi en auk þess er mikill hiti í Kaliforníu og töluverður vindur. Notast er meðal annars við 28 þyrlur og 8 flugvélar við slökkvistarfið, en eldarnir ná yfir 8000 hektara og hafa mörg hundruð íbúar neyðst til að yfirgefa heimili sín.

„Enn sem komið er höfum við flutt íbúa á brott frá hundrað heimilum, það eru um 300 manns. Fólkið er nú í neyðarathvarfi hérna í Golden Valley-miðskólanum.” segir Burton Brink varðstjóri hjá lögreglunni í Los Angeles.

Íslendingur á svæðinu segist ekki verða mikið vör við aukin viðbúnað.

„Við í borginni sjáum voða lítið, allt of sumt af því sem við sjáum er að það er brúnt yfir. Þykkt lag. Annars höfum við ekki orðið mikið vör við þetta. Slökkviliðsmenn úr borginni eru að hjálpa til við þetta. Þetta er aðeins fyrir norðan LA. Þannig að þeir fara þangað og við verðum vör við það. Sólarlagið er svolítið sérstakt þegar það er svona mikill reykur.

Sjálfsagt minnir á mengunina í kringum 1980. Þetta er í úthverfi, norðan við borgina og þetta er þurrt svæði þannig að það eru venjulega eldar þar þegar þeir koma upp. Þetta er svolítið hærra heldur en borgin sjálf þannig að það er fjallhryggur sem skilur þetta að. Þannig að við sjáum ekki mikið af þessu.” segir Þóra Baker, Íslendingur sem er búsettur í Los Angeles.

Haft er eftir slökkviliðsstjóra svæðisins að  ef allt fari á versta vega þurfi að rýma 45 þúsund heimili.

Fjölmörg villt dýr hafa flutt af svæðinu í dýraathvarf þar sem þeim er sinnt.

Engar upplýsingar hafa komið fram um slys á fólki en slökkviliðsmenn hafa náð tökum á um 10% svæðisins þar sem eldarnir loga.

Veðurfræðingar hafa varað við því að ekki séu miklar breytingar á veðri fram undan og gæti það hafa áhrif á slökkvistarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×