Innlent

„Um hvað er forsætisráðherra að tala?"

Stefán Árni Pálsson skrifar
Áslaug Friðriksdóttir er í fjórða sæti á Lista Sjálfstæðisflokksins í borginni.
Áslaug Friðriksdóttir er í fjórða sæti á Lista Sjálfstæðisflokksins í borginni.
Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borginni, virðist ekki vera sátt með yfirlýsingu forsætisráðherra um málefni Framsóknarflokksins í borginni ef marka má færslu sem hún skrifar á Fésbókarsíðu sinni.

„Um hvað er forsætisráðherra að tala? „Þegar menn seilast svo langt að saka heilu hópana um kynþáttaníð að ósekju...".Að ósekju? Því miður var það svo að oddviti Framsóknar sagði í viðtali við Vísi að hún vildi ekki úthluta lóðum undir moskur og rétttrúnaðarkirkjur og virðir þar með ekki jafnræði milli trúfélaga,“ skrifar Áslaug.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði í yfirlýsingu á Fésbókarsíðu sinni að hann vilji ekki blanda sér í umræðu um hvort Reykjavíkurborg eigi að gefa trúfélögum ókeypis lóðir eða ekki.

Fram kemur í yfirlýsingu Sigmundar: „Þegar menn seilast svo langt að saka heilu hópana um kynþáttaníð að ósekju þá er það ekki bara alvarlegt mál fyrir þá sem fyrir því verða heldur fyrir samfélagið allt. Með því að misbeita slíkum ásökunum er verið að draga úr þeim mikilvæga þunga sem þarf að liggja að baki baráttu gegn kynþáttahyggju.“

Áslaug gefur ekki mikið fyrir orðalag forsætisráðherrans.

„Fjöldi manns hefur fordæmt ummælin. Í gær stigu svo ungir framsóknarmenn fram og gerðu slíkt hið sama. Það er háalvarlegt að forsætisráðherra landsins svari því ekki hvar hann stendur gagnvart þessum ummælum heldur snúi út úr með þessum hætti. Verandi í flokki sem stendur fyrir frelsi einstaklingsins þar á meðal trúfrelsi en í samstarfi við forsætisráðherra finnst mér með ólíkindum að hann leyfi sér að fara í kringum kjarna málsins eins og köttur í kringum heitan graut,“ stendur í færslu Áslaugar en stjórn ungra Framsóknarmanna birti í gærkvöldi harðorða ályktun þar sem lýst er yfir fullkomnu vantrausti á Sveinbjörgu Birnu Sveinbjarnardóttur, oddvita flokksins í Reykjavík.

Yfirlýsingin var reyndar fjarlægð skömmu síðar og engir hlutaðeigandi hafa látið ná í sig í morgun til að gefa skýringar á málinu.


Tengdar fréttir

Fordómarnir og tvískinnungurinn

Framsóknarflokkurinn kastaði neti fyrir atkvæði á fremur ógeðfelldum miðum fordóma og útlendingahaturs þegar Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti flokksins í Reykjavík, sagði í samtali við Vísi að hún vildi afturkalla lóðir sem Félagi múslima á Íslandi og rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni hefur verið úthlutað fyrir helgidóma.

Sveinbjörg Birna kæmist í borgarstjórn

Niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sýna að Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, kæmist í borgarstjórn. Þetta er fyrsta skoðanakönnunin sem birtist síðan hún lét umdeild ummæli um mosku í Reykjavík falla.

Oddviti Framsóknar vill afturkalla lóð til múslima

"Ég hef búið í um eitt ár í Sádí Arabíu og byggi þessa skoðun mína ekki á fordómum, heldur reynslu," segir Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti lista Framsóknarflokksins og flugvallarvina. Hún telur að á meðan hér á landi sé þjóðkirkja eigi ekki að úthluta lóðar til byggingu mosku eða sambærilegra húsa annarra trúfélaga.

Enn þegir Sigmundur Davíð

Vaxandi óþol er gagnvart því að forysta Framsóknarflokksins taki ekki afgerandi um afstöðu til mjög svo umdeildrar afstöðu oddvita flokksins í Reykjavík sem túlkuð hefur verið sem andúð í garð innflytjenda.

Á að afturkalla lóðir trúfélaga?

Nýr oddviti Framsóknar í Reykjavík, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, hefur nú lýst yfir þeirri afstöðu sinni að ekki beri að „úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku rétttrúnaðarkirkjuna“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×