Innlent

"Tjónið var unnið að manninum lifandi“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar

Þýski réttarmeinafræðingurinn Regina Preuss mætti fyrir Héraðsdóm Suðurlands í dag vegna aðalmeðferðar í máli ríkissaksóknara gegn þeim Berki Birgissyni og Annþóri Karlssyni. Er þeim gefið að sök að hafa ráðist á Sigurð Hólm Sigurðsson með þeim afleiðingum að hann lést, en Regína er réttarmeinafræðingurinn sem gerði krufninguna á Sigurði.

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari spurði fyrst hvort hún kannaðist við að hafa framkvæmt krufningu á Sigurði Hólm. Hún játti því og næst spurði þá Helgi út í skýrsluna sem hún vann um krufninguna.

„Bein dánarorsök voru innri blæðingar. Þessar blæðingar eiga uppruna sinn í miltanu, eða æðum þess. Í kviðarholi voru til staðar tveir lítrar af fljótandi blóði og orsök skemmda á milta eða æðum er áverki,“ sagði hún um helstu niðurstöður.

Annþór og Börkur afplána þunga ofbeldisdóma á Litla-Hrauni.vísir/e.ól.

Skoðaði lifur og hjarta með berum augum og smásjá

Regina sagðist hafa skoðað hjarta Sigurðar og lifur, bæði með berum augum og smásjá, en að ekkert hafi verið að sjá sem benti til þess að einhver veikindi þar hefðu dregið hann til dauða.

Ítarlega var spurt út í hvort að Sigurður hefði verið með skorpulifur en í lifrinni fundust hersli og hnútar en Regina taldi ekki um að ræða eiginlega skorpulifur. Það gera hins vegar yfirmatsmenn sem fóru yfir skýrslu Reginu.

Ekki skurður, heldur rifa

Yfirmatsmenn hafa einnig leitt að því líkur að mistök í krufningunni geti útskýrt rofið á milta Sigurðar. Regina sagði að útlit rifnanna á miltanu og miltisbláæðinni væru þess eðlis að ekki væri um að ræða áverka eftir hníf, svo sem skurðhnífinn sem hún notaði.

„Í skoðuninni kom í ljós að jaðrar þessara rifna sem við erum að tala um hér, þetta voru tenntari rifur en slétt strik, eins og ef hníf hefði verði brugðið þarna á. Af því má draga þá ályktun með vissu að hér er ekki um skurð að ræða heldur að eitthvað hafi rifnað,“ sagði hún.

Rifan gat hafa stækkað við krufningu

Regina útilokað þó ekki að rifan hafi getað stækkað eitthvað við krufninguna en ljóst að áverkarnir voru til staðar áður en krufningin fór fram.

Fram kom í spurningum saksóknara að síðustu mínútuna sem Sigurður lifði var hann að kasta upp. Hann spurði hvort að Sigurður hafi hugsanlega kafnað í eigin ælu og dáið þannig.

„Nei það er ekkert sem bendir til þess vegna þess að í öndunarveginum voru engar matarleifar eða nokkra aðra aðskotahluti að finna. A einum stað stendur í skýrslu að matarleifar hafi verið í öndunarvegi en við krufninguna kom í ljós að það var tilkomið eftir andlát. Vissulega fundust í lungum örsmá, eða vottur af, matarleifum en engar líkur eru að slíkt gæti leitt til dauða,“ svaraði hún.

Annþór Kristján Karlsson í dómssal í héraðsdómi í ótengdu máli.Vísir/GVA

Tveir lítrar af blóði vegna endurlífgunartilrauna?

Yfirmatsmenn í málinu hafa leitt að því líkur að þeir tveir lítrar af blóði sem fundust í kviðarholi Sigurðar hafi komið þangað í endurlífgunartilraunum og að miltað hafi jafnvel rofnað í þeim tilraunum. Í öllum vitnisburði sínum hafði Regina ekki viljað útiloka neitt, heldur aðeins talað um að líkur væru á eða sterkar vísbendingar væru um tiltekin atriði, fyrr en hún var spurð hvort miltað og blóðið væri tilkomið vegna lífgunartilraun.

„Ég tel það útilokað að heilbrigt milta springi við lífgunartilraunir. Í fyrsta lagi er miltað mjög vel varið rifbeinum og í öðru lagi þá tel ég það alveg útilokað í lífgunartilraunum að dæla tveimur lítrum úr blóðrásinni,“ sagði hún.

Eðlilegt að spurningum lögreglu sé svarað með krufningu

Sveinn Guðmundsson, verjandi Barkar, tók þá við og spurði Reginu um krufninguna og hvort hún kæmi að verkefninu út frá hlutlægum forsendum og hvort hún gæfi sjálfstætt álit. Því játti Regina.

Sveinn benti á að í bráðabirgðaskýrslu Reginu væri hún að svara ákveðnum spurningum sem lögreglan hefði lagt fyrir hana í málinu. Hún sagði það vera eðlilegt í málum sem þessu. Það taldi hún. „Já í svona sérstökum tilfellum er það að mér séu fengnar ákveðnar spurningar."

Vitnaði hann einnig til þess að hún og dómskvaddur matsmaður í málinu hefðu tekið þátt í endursköpun lögreglunnar á aðstæðum í klefanum.

Spurði hann þá hvort að öll rannsókn hennar hefði því beinst að því að sanna að högg hefði orsakað rof á miltanu. „Nei. Það getur maður ekki sagt á þennan hátt. Við vorum báðar þarna á staðnum fyrir sömu ástæðu. Verkefni okkar fólst í því að athuga hvort að við þessar aðstæður hefði getað komið til að ytri áverki hafi getað valdið þessu.“

Þannig að samskipti þín við lögreglu lituðu ekki þína afstöðu, spurði hann næst. „Það var ljóst eftir krufninguna að rofið milta og blæðingin voru andlátsorsökin og það hlaut að vera ytri áverki, utanaðkomandi áverki, sem olli þessum miltisskemmdum. Verkefnið var í þessum eftirlíkingarklefa að athuga hvort það gæti verið að fall við þessar aðstæður hefðu getað leitt til þessara miltisskemmda og það hafi ekki þurft að vera áverki utanaðkomandi þriðja aðila,“ svaraði Regina.

Hólmgeir Elías Flosason er verjandi Annþórs Karlssonar.Mynd/versus

Ekki hægt að fullyrða 100 prósent í læknisfræði

Sveinn lýsti svo atgervi Sigurðar, hann væri 185 á hæð en bara sjötíu kíló, og að hann hefði verið í lyfjaneyslu. Þá spurði hann Reginu að með allt þetta í huga, og að Sigurður Hólm hafi neytt lyfja stuttu fyrir andlát sitt, hvort hún gæti sagt 100 prósent að þetta hafi ekki getað valdið hjartastoppi. „Í læknisfræði er ekkert til sem heitir að fullyrða eitthvað 100 prósent. En með líkindum sem nálgast fulla vitneskju get ég haldið fram að þetta hafi ekki valdið,“ sagði hún og svaraði næst á hverju hún byggði það.

„Vegna þess að gildin sem niðurstöður eiturefnamælingar gáfu til kynna voru ekki á eitrunarstyrk. Og ekkert kom fram við rannsóknir sem bentu til þess að þol þessa líkama hafi verið eitthvað minna en annarra gagnvart þessum efnum. Tveir lítrar af blóði í kviðarholi, það samanlagt séu nánast 100 prósenta líkur á að þarna sé um að ræða dánarorsök að ræða.“

En ertu jafnframt sérfræðingur í eiturefnafræði? „Nei þess vegna eru svona sýni send í eitrunarskoðun.“

Næst fóru spurningarnar að snúast um það hvort að þeir tveir lítrar af blóði sem fundust í kviðarholi Sigurðar gætu hafa endað þar sökum endurlífgunartilrauna sem gerðar voru á honum.

Tjónið unnið að manninum lifandi

Sveinn sagðist, meðal annars sem forsvarsmaður í Landssamtökum hjartasjúklinga, getað vitnað til þess að í fjölmörgum tilvikum þar sem verið er að endurlífga og miltað heilbrigt að þá hefur það getað rofnað við slíkt.

Regina var ansi skýr í svari sínu. „Við þessu hef ég aðeins eitt að segja, ég hef sjálf krufið fjölda fólks eftir lífgunartilraunir og aldrei séð rofið milta. Og ég undirstrika enn einu sinni að í kviðarholinu voru tveir lítrar blóðs sem þangað bárust vegna þess að tjónið var unnið að manninum lifandi.“

Spurði þá Sveinn út í álit hennar á því sem læknir sem hafði áður borið vitni í málinu um að endurlífgun eftir hjartastopp, eins og í þessu tilviki, geti ekki útilokað þessa blóðsöfnun endilega.

„Eitt og sér dugar þetta ekki. Niðurstaðan af þessum spurningum og svörum er þetta blóðmagn í kviðarholinu, tveir lítrar af blóði, segir okkur það að áverkinn var veittur að manninum lifandi. Ekki sem afleiðing af endurlífgunartilraunum,“ sagði hún.

Annþór og Börkur lýsa yfir sakleysi sínu í málinu.

Lífgurnartilraunir í tæpa klukkustund

Lífgunartilraunir stóðu yfir í 45 til 50 mínútur og vildi Sveinn fá að vita „hvers vegna í ósköpunum“ getur blóðið ekki hafa safnast upp með þeim hætti? „Ég hef áður minnst á það að einstaklingurinn hafi ekki sýnt nein lífsmörk þegar endurlífgun stóð yfir og að hringrásin hafi ekki lengur verið fyrir hendi,“ sagði Regina.

Hólmgeir tók þá við og spurði Reginu. Hann spurði fyrst út í matarleifarnar í öndurvegi. Vildi hann fá að vita hvort útilokað væri að Sigurður Hólm hefði kafnað í eigin ælu. Margspurði hann um matarleifarnar og hvort að þær hafi verið þurrkaðar burt við endurlífgun.

„Það eru hluti af stöðluðum vinnubrögðum að opna öndunarveginn alveg niður í lungnablöðrur og þar var þetta ekki að finna,“ sagði hún.

Lögreglan spurði í bráðabirgðaskýrslunni hvort höggið sem hafi sprengt miltað hafi komið að framan eða aftan. Sú skýrsla var skrifuð fjórum dögum eftir andlát, en sama dag og krufningin fór fram.

Hólmgeir spurði þá: „Fannst þér aldrei skrýtið að sýslumaðurinn á Selfossi hafði einn síns liðs og án hjálpar ákveðið að það var högg, á fyrstu þremur dögum eftir andlát?“

Og Regina svaraði: „Það er ekki mitt að dæma um það. Að svara þessari spurningu, get ég ekki.“

Hún staðfesti hins vegar að þessi spurning hafi komið frá sýslumanninum, þó hún hafi ekki getað það eftir minni, heldur gögnum málsins.

Spurð út í þátttöku hennar í endurgerð lögreglu

Hólmgeir spurði líkt og Sveinn út í þátttöku hennar í endurgerð lögreglu á aðstæðum í klefanum. Vildi hann fá að vita hvort hún hafi gert einhverjar athugasemdir við það að vera á vettvangi með lögreglu og þannig að taka þátt í einhverskonar vettvangsrannsókn.

„Nei alls ekki. Öðru nær. Vegna þess að réttarmeinarfræðingar horfa oft öðru vísi á aðstæður heldur en lögreglan gerir. Við höfum þekkingu á því hvernig hlutur þarf að vera í laginu til að valda þessum og þessum áverka.“

Gekkst hún við því að hafa aðstoðað við rannsókn lögreglunnar. „Já við það að vera í þessari eftirlíkingu klefans og í raunverulega klefanum sömuleiðis.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×