Lífið

„Tilfinningalífið breytist þegar maður léttist mikið“

Vísir/Getty
„Ég var 27 ára og um 220 kg þegar ég ákvað að fara í hjáveituaðgerð á maga. Ég veit hvað þið eruð að hugsa: Þú fórst auðveldu leiðina. En ég get sagt ykkur það, að fara í aðgerð af þessu tagi er langt frá því að vera auðvelt. Maður verður að vera algjörlega staðráðinn í að breyta lífi sínu.“

Svona hefst frásögn hinnar bresku Shannon Britton á CNN, en hún segir frá upplifun sinni af því að fara í skurðaðgerð í þeim tilgangi að létta sig.

„Fyrir aðgerðina sem var framkvæmd fyrir næstum þremur árum, fór ég og hitti skurðlækni, næringarfræðinga, einkaþjálfara og sálfræðing. Ég fór í tíma og lærði um máltíðir, líkamsrækt og hvernig líkami minn kæmi til með að breytast. Við lærðum um lýtalækningar - hvernig margir þeir sem fara í aðgerðir til þess að létta sig fara síðar í aðgerðir til þess að losa sig við alla aukahúð.

Ég var tilbúin. Eða ég hélt það allavega.

Þann 23. nóvember, 2011, lagðist ég undir hnífinn. Síðan hef ég lést um rúmlega 120 kg. 

Það sem maður er ekki undirbúinn fyrir er hvernig tilfinningalífið breytist eftir að maður léttist. Fyrst hélt ég að sjálfsöryggið yrði meira. Ég yrði grennri og myndi vilja hlaupa um allt, nakin. Ókei, kannski ekki nakin, en ég lifði í þessum draumi að einn daginn myndi ég vakna í líkama sem ég elskaði og þætti allt í lagi að fara í bikiní. 

Ég hélt að fólk tæki mér opnari örmum því það myndi ekki líta á mig sem of feita. Það myndi verða auðveldara að fara á stefnumót. Föt myndu klæða mann betur. Ég yrði ekki dómhörð gagnvart öðru feitu fólki því að ég var einu sinni stór.

Vá, hvað ég hafði rangt fyrir mér.

Í fyrsta lagi, þó að mér líði dásamlega og ég sé loksins að kunna við það hvernig ég lít úr, koma dagar þar sem ég hata líkama minn. Ég hata hvernig föt leggjast á aukahúðina. Ég hafa hvernig húðin hangir neðan úr handleggjunum á mér, lærunum, bakinu og maganum. Ég hata að það muni kosta að minnsta kosti rúma eina og hálfa milljón í lýtaaðgerðir til þess að losna við þessi 15-20 kg sem ég á eftir að losna við.

Ég er líka með slitför og ör eftir aðgerðina á maganum. Ég er oft hrædd þegar ég stunda kynlíf með kærastanum mínum. Ég vissi alveg hvað ég var að fara að gera þegar ég ákvað að fara í aðgerðina, en sú vitneskja kemur ekki í veg fyrir það hversu meðvituð ég verð um sjálfa mig þegar ég geng út úr sturtu, eða þegar ókunnugir eða börn flissa því þau skilja ekki af hverju líkaminn minn er eins og hann er.

Sambönd mín við fólk breyttust líka. Þegar ég fór í aðgerðina hafði maðurinn sem ég var með verið besti vinur minn í sjö ár. Honum fannst ég aðlaðandi þegar ég var 220 kg, þó ég viti ekki af hverju. En þegar ég missti fyrstu 30 kg, fór hann frá mér.

Skurðlæknirinn minn útskýrði fyrir mér að þetta væri nokkuð algengt meðal sjúklingana hans. Af einhverri ástæðu getur það haft áhrif á makann þegar annar léttist mikið, öðlast meira sjálfsöryggi og fer að fá meiri athygli. Reynslan kenndi mér það að sá sem er öfundsjúkur út í eitthvað sem gerir mér gott og er hollt fyrir mig vill ekki það besta fyrir mig.

Að fara á stefnumót eftir það var erfitt, þar til ég hitti núverandi kærasta minn fyrir um hálfu ári síðan. Flestir strákar urðu hræddir. Hræddir við að fara með mig út að borða, hræddir um að eyðileggja megrunina, og þegar þeir sáu myndir af mér eins og ég var, fóru þeir að velta fyrir sér hvað myndi gerast ef ég myndi byrja að bæta á mig aftur.

Það var ýmislegt fleira sem kom mér á óvart. Enginn sagði mér að það myndi hafa svona djúpstæð áhrif á mig þegar mjög feitu fólki er veitt sérstök athygli vegna þess að þau vilja vera feit. Til að mynda þegar fólk kemur fram í sjónvarpsþáttum og segist vera ánægt með að vera 300 kg. 

Ekki misskilja mig, mér finnst dásamlegt að fólk sé ánægt í eigin skinni, sérstaklega í ljósi þess að ég upplifi mig ekki alltaf þannig. En í mínu tilfelli, var það ekki val að vera svona þung. Þannig að kannski er ég bara ekki að tengja við þetta fólk.

Að vera of feitur er slæmt fyrir heilsuna. Ég notaði aðgerðina sem tól til þess að bjarga lífi mínu, svo ég myndi ekki þróa með mér sykursýki, fá hjartaáfall 35 ára gömul, og vonandi minnka möguleikana á því að ég fái krabbamein. Núna hef ég enga þolinmæði fyrir afsökunum fyrir því að fólk geti ekki borðað hollt og stundað líkamsrækt.

Kjarni málsins er þessi: Það sem enginn mun nokkurn tíma segja þér um að léttast er það að smám saman byrjar talan á vigtinni að skipta minna og minna máli.

Það sem skiptir máli er hvernig þér líður, hvernig þú lítur út og hversu hamingjusamur þú ert. Ég veit að eins og ég er núna er ég enn samkvæmt einhverjum stöðlum of þung, en ég er heilsuhraust. 

Og ég minni mig á það að ekkert bragðast eins vel og það að vera heill heilsu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×