Lífið

"Þung skref að labba þarna inn og finna skömmina“

Ellý Ármanns skrifar
„Ég er öryrki, búin að vera það í 14 ár,“ segir Heiða Björk Jónsdóttir, 41 árs, tveggja barna móðir. Heiða Björk, sem lenti í bílslysi á sínum tíma, á um sárt að binda. Ákvað hún að deila sögu sinni með landsmönnum á Facebook.

Þar skrifar hún um erfiða reynslu sem hún upplifði þegar hún neyddist til að leita til Fjölskylduhjálpar Íslands því hún átti ekki fyrir mat.

„Mér var boðið að koma strax í dag og sækja mat ef ég gæti, ég þáði það og brunaði af stað alveg ótrúlega þakklát á síðustu bensín dropunum upp í Breiðholt til að þiggja mataraðstoðina. Það voru ótrúlega þung skref að labba þarna inn og finna skömmina, hjartsláttinn, svitann og skjálftann sem kom í kjölfarið... en ég náði að bíta vel á jaxlinn og leyfði tárunum ekki að renna niður kinnarnar fyrr en ég keyrði til baka. Ótrúlega blendnar tilfinningar að átta sig á því að ég tapaði stoltinu, fann fyrir afneitun og fordómum en samt svo mikið þakklæti í gangi,“ skrifaði Heiða. 

Öryrki eftir bílslys

„Ég á tvö uppkomin börn og hef alltaf getað séð fyrir sjálfri mér en núna er þetta bara mjög erfitt. Ég fór í desember í Heimilishjálpina og fékk aðstoð fyrir jólin í fyrra en þá hugsaði ég með mér: Ég ætla aldrei að koma aftur því ég vonaði svo innilega að staðan yrði betri,“ segir Heiða. 



Kaupir sjaldan kjötmat

„Ég kaupi nánast aldrei kjötmat. Það hefur reyndar komið fyrir að ég kaupi plokkfisk en ég kaupi núðlur. Svo er ég hætt að hringja því það kostar svo mikið. Ég á enn eftir að gefa barninu mínu afmælisgjöf síðan í maí en þegar staðan er svona þá má ekkert klikka eins og til dæmis ef bíllinn bilar. Ég fer ekki til tannlæknis því ég á ekki fyrir tannlæknaþjónustunni.“

„Maður lifir lengi á núðlum brauði og Kornflexi en veistu maður fær hundleið á þessu mataræði og ég fékk bara nóg. Ég hef búið mér til eggjahrærur til að breyta til. Þegar börnin voru yngri kostaði maturinn og bensínið ekki svona mikið. Þetta var erfitt en í dag er þetta enn erfiðara.“

Lifir á 50 þúsund krónum á mánuði

„Ég er eins og flestir aðrir sem eru á örorkubótum. Ég fæ útborgað 191 þúsund krónur á mánuði. Ég er í bæjaríbúð og borga rúmar 80 þúsund krónur í leigu þá með hita rafmagni og hússjóð. Þá er ég búin að fá sjálf 46 þúsund í húsaleigubætur. Ég er með eitt lán og afborgunin er um 5000 krónur á mánuði og ég er með bíl þar sem ég greiði tryggingar og rekstur en ég á varla fyrir bensíni. Þá greiði ég 30 þúsund í skatta og ýmis gjöld. Ég lifi á um 50 þúsund krónum á mánuði,“ útskýrir Heiða einlæg.

„Ég er mjög hamingjusöm kona en ég sé ekki að ástandið muni lagast.“

Fjölskylduhjálp Íslands.
Hér er pistill Heiðu í heild sinni:

„Já, STOLTIÐ mitt fékk sko heldur betur að fjúka í dag...ég er meira að segja komin á feisbúkkið til að tilkynna að ég tapaði STOLTINU mínu, STOLTINU mínu sem var með bullandi heimþrá.

Það þurfti nú ekki mikið til að tapa því skal ég segja ykkur, það byrjaði nú allt saman í rólegheitunum heima hjá mér, ég er ekki að tala um einhverja kósí stund inn í stofu...þetta var þegar ég stóð fyrir framan tóman ísskápinn og átti ekki mjólk út á morgunkornið – kvöldkornið og hugsaði hvað ég ætti þá að borða...uuuuu brauð eða núðlur, mjög góð hugmynd.

Enn langaði í eitthvað annað, ég get svarið það mig langaði í eitthvað annað.

Þá flippaði heilatuðran og fór á flug, comon Heiða.... ekkert svona vanþakklæti þú hefur svo margt sem aðrir hafa ekki ....þú getur nú alveg haldið áfram að sjóða þér núðlur. Hvað ertu að kvarta það er fullt af fólki sem hefur það miklu verra en þú.

En á þessari stundu þurfti ég samt að horfast í augu við stöðuna og reyna að sleppa STOLTINU enn ég veit að ég get ekki lifað endalaust á morgunkorni, núðlum og brauði....ég þarf ekki að vera næringarfræðingur til að átta mig á því að þetta er ekki holt til lengdar. 

Enn þetta er staðan og ég hef alltaf VAL.

Val ja...OK, reyna að halda STOLTINU eða hringja í fjölskylduhjálpina.

Jedúddamía ég taldi mér trú um að ég væri búin að sleppa STOLTINU og valdi fjölskylduhjálpina ógesssslega ánægð með mig  

Ég tók upp símann og hringdi....átti í erfiðleikum með að einbeita mér að tala við þessa elskulegu konuna sem svaraði mér, STOLTIÐ mitt fékk nefnilega heimþrá...Fordómarnir komu líka í ljós...og minnti mig á þegar ég hafði síðast fengið hjálp frá þeim fyrir jólin í fyrra, þá hugsaði ég með mér vonandi þarf ég ALDREI að koma hingað aftur, það er fullt af fólki sem hefur það miklu verra en ég.

Afgreiðsla samdægurs 

Mér var boðið að koma strax í dag og sækja mat ef ég gæti, ég þáði það og brunaði af stað alveg ótrúlega þakklát á síðustu bensín dropunum upp í breiðholt til að þiggja mataraðstoðina.

Það voru ótrúlega þung skref að labba þarna inn og finna skömmina, hjartsláttinn, svitann og skjálftann sem kom í kjölfarið... enn ég náði að bíta vel á jaxlinn og leyfði tárunum ekki að renna niður kinnarnar fyrr en ég keyrði til baka. Ótrúlega blendnar tilfinningar að átta sig á því að ég tapaði stoltinu, fann fyrir afneitun og fordómum enn samt svo mikið þakklæti í gangi.

Enn Jæja núúú kom það, Það kostaði mig ekki nema 200 krónur að tapa STOLTINU....ég er að segja það það fffauuuk fyrir 200 krónur.

Á meðan ég var að bíða eftir að það var verið að setja mat í poka fyrir mig Þá rak ég augun í háralit sem kostaði heilar 200 krónur og ég hugsaði vá þetta er sko ódýrt.

Akkúrat á þessu mómenti gerði ég mér grein fyrir stöðunni.... ég átti ekki fyrir háralitnum, við erum að tala um 200 krónur. Enn þær sem voru að vinna þarna voru svo elskulegar að bjóða mér samt að kíkja á það sem væri í boði. Enn ég gat því miður ekki þegið boðið því liturinn hentaði ekki, en þakka samt gott boð.

Keyrði svo heim með öllum mínum tilfinningum án Stolts.

Ég sem Fj-öryrki, hef það ekki svo slæmt miða við marga aðra hehe heilatuðran komin á flug eina ferðina enn...en ég er að segja það oft er staðan hjá mér mun betri en akkúrat núna.

Guð minn góður þeir sem eru með börn á framfæri og hafa ekki mikið milli handana. Fordómarnir á þessu landi eru svakalegir og fékk ég sjálf að upplifa það hjá sjálfum mér í dag. Það er alveg sama hvað við vælum heima hjá okkur og hérna á feisbúkkinu það breytist ekkert það þarf alltaf að gera eitthvað til að hlutirnir breytast.

Eins og staðan er núna þá segi ég bara guð minn góður þegar allt á eftir að hækka um áramótin...ekki er ég tilbúin að svelta mig, gramsa í gámum eða hreinlega stela mér til matar eins sumt fólk er farið að gera. þá vel ég frekar að berja potta, pönnur eða hreinlega þá sem stjórna þessu pleysi.

Blóm og kransar afþakkaðir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×